149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:41]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enginn ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns um að fara þurfi varlega þegar eignir eru seldar. Þetta á allt að vega og meta, hvar hagsmunir okkar allra í þeim málum liggja. Um það er enginn ágreiningur.

Ég held hins vegar að kannski sé ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns um að hafa áhyggjur af því að ef rekstur fer til einkaaðila verði þjónustan verri. Við höfum enga reynslu af því, frekar öfugt. Ég hef engar áhyggjur af því.

Ég geri heldur engan ágreining um það við hv. þingmann að veggjöld eru skattur. Veiðigjöld eru skattur. Þetta er allt skattur á ákveðna hópa. Það er enginn ágreiningur þar. Ég er einfaldlega að segja að ef við ætlum að flýta framkvæmdum sem ég tel mjög arðsamar getur alveg verið réttlætanlegt að hafa slíkan skatt. Það er þá skattur sem miklu fleiri en bara íslenskir ríkisborgarar greiða. Að því leyti er skatturinn yndislegur.

Ég held að enginn ágreiningur sé á milli mín og hv. þingmanns nema helst að því leytinu að ég tel almennt að þegar því verður við komið sé rekstur betri hjá einkaaðilum en ríkinu.