149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

dómur um innflutning á hráu kjöti.

[15:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem var margþætt. Haldnir hafa verið tveir formlegir fundir með framkvæmdastjórum Evrópusambandsins vegna þessa máls. Þeir voru haldnir í apríl á þessu ári. Við ráðgerum að óska eftir frekari fundum þar.

Það er rétt að fyrir helgi féll dómur Hæstaréttar sem er tiltölulega stuttur og einfaldur. Hann staðfestir í raun héraðsdóminn sem áður hafði fallið og er sömuleiðis samhljóða niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Það er allt á einn veg.

Þjóðréttarleg skuldbinding liggur fyrir af hálfu Íslands. Um það var samið árið 2007 og afstaða Evrópusambandsins er tiltölulega skýr í þessum efnum og afstaða dómstóla sömuleiðis.

Hæstiréttur nefnir það t.d. í sínum dómi að ekki sé unnt að vísa til markmiðsins um vernd lífs og heilsu manna og dýra í viðskiptum innan EES eins og það birtist í 13. gr. EES-samningsins, sem hv. þingmaður nefndi áðan.

Þegar hv. þingmaður spyr hvað taki við, hvort ráðherrann muni leggja fram frumvarp um þessi efni, þá segi ég: Já, á þingmálaskrá minni er gert ráð fyrir frumvarpi í febrúar á næsta ári þar sem tekið er á niðurstöðu dómsmálanna. Ég get ekki svarað neinu til um það á þessari stundu hvernig það mun líta út, það er enn í smíðum.

Ýmsar aðgerðir hanga einnig við þetta mál, aðgerðir sem grípa þarf til hvort heldur dómurinn verður fullnustaður með einum eða öðrum hætti eða ekki. Ég skal reyna að koma að þeim atriðum í síðara svari mínu.