149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

innflutningur á fersku kjöti.

[15:38]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir ákaflega skýrt og greinargott svar. Ég átti svo sem ekki von á öðru en þetta er ánægjulegt. Hitt er auðvitað ekki vansalaust, eins og hæstv. ráðherra minntist á, að stjórnvöld hafi um margra ára skeið ekki búið sig undir hina augljósu niðurstöðu í þessu máli. Þá hlýtur maður að spyrja, því að á þingmálaskránni er gert ráð fyrir frumvarpi í febrúar sem viðbrögð við þessum dómi: Hver er staða fyrirtækja sem hyggjast flytja inn ferska kjötvöru? Ég held að það sé dálítið alvarlegt mál ef menn þurfa að bíða frá 12. október fram í mars, apríl eða maí á næsta ári eftir því að ríkið og Alþingi setji reglur um þetta mál. Ég óttast (Forseti hringir.) að þarna geti ríkið verið að baka sér skaðabótaskyldu og ég hef af því áhyggjur fyrir hönd ríkissjóðs.