149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:37]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir mikilvæga umræðu. Ég var að rifja það upp meðan ég var að hlusta á ágætar ræður hér að fyrir tveimur áratugum síðan stýrði ég verkefni sem hét Jafningjafræðslan, og heitir enn þótt með breyttu sniði sé í dag. Það sem var svo frábært við það verkefni var að það var uppsprottið af mjög svo tærum vilja ungmenna til að tala við jafningja sína um vondar hliðar fíkniefnaneyslu svo þau hefðu alla vega þær upplýsingar. Þau gætu síðan í kjölfarið gert það sem þau vildu.

Ég man hins vegar að við vorum talsvert gagnrýnd af öðrum aðilum í bransanum, ef svo má segja, oft réttilega. En það sem ég var smávegis hugsi yfir og er kannski enn og langaði að fá að nota tækifærið hér til að nefna er að ég held að það sé mjög mikilvægt að við festumst ekki í einhverri einni aðferð eða einni leið, að ekki verði einhvern veginn forvarnaaðferð ríkisins viðhöfð því að ungmenni eru mjög misjöfn. Það er mjög mismunandi hvað hefur mest áhrif, hvort sem það er fræðsla eða íþróttir, jafnvel smáhræðsluáróður. Það er misjafnt. Ég held að það sé mikið unnið með því að við reynum að nálgast verkefnið þannig því að mikilvægt er það.