149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni að breytingarnar munu kosta. Ég vænti þess að gerðar verði tillögur, svo fremi sem þær hljóti brautargengi á þingi, við 2. umr. fjárlaga um viðbætur við fjárlög. Uppskiptinguna nefndi ég.

Ég tel hins vegar fulla þörf á því þegar við förum til að mynda í tugmilljarðaframkvæmd við Hringbraut að fjármunum sé vel varið í að tryggja gott flæði á milli heilbrigðisráðuneytis og nýs Landspítala, að þar sé unnið mjög þétt saman til að allt gangi upp. Ég held að með því að verja auknum fjármunum til stjórnsýslunnar séum við að spara fé til lengri tíma litið.

Sama get ég sagt t.d. um málefni almannatrygginga, sem ég nefndi áðan, þar sem millimetrabreytingar nema milljörðum þegar við skoðum dæmin. Þá skiptir máli að stjórnsýslan sé öflug.

Af því að hv. þingmaður nefndi ríkisstjórnina sem hér sat 2009–2013, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, var eitt markmiðanna með breytingunum að efla stjórnsýsluna, efla fagþekkingu innan hennar, (Forseti hringir.) hafa öflugri stjórnsýslu. Ég held að þótt þessi breyting snúi að því að skipta upp einu ráðuneyti í tvö snúist hún líka um að efla hina faglegu stjórnsýslu og ég held að þess þurfi.