149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[16:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna. Þetta embætti var stofnað 1. janúar 1995 með lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna. Tillögur þessa efnis hafa áður verið lagðar fram í nokkur ár og ég nefni sérstaklega tillögur þáverandi hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar sem var mikill talsmaður barna á Alþingi á þeim tíma.

Meginhlutverk umboðsmanns barna hefur verið að vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögaðila taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal umboðsmaður barna setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins.

Frá því að þessi lög voru sett 1994 hafa engar efnislegar breytingar verið gerðar á þeim. Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálans, hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að framfylgja ákvæðum sáttmálans í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og framkvæmd á öllum þeim sviðum sem hann nær til. Þar hefur embætti umboðsmanns barna mikilvægu hlutverki að gegna. Með frumvarpinu er lagt til að umboðsmanni barna verði falin aukin verkefni sem miða að því að styrkja enn frekar stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans. Markmiðið er að embættið verði öflugur og virkur málsvari barna í íslensku samfélagi, enn frekar en nú þegar er, og stuðli að því að stefna stjórnvalda um barnvænt samfélag nái fram að ganga.

Meginefni frumvarpsins er fjórþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrar verði kveðið á um hlutverk umboðsmanns barna og áhersla lögð á réttindi barna, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum sem lúta að réttindum barna eins og t.d. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í öðru lagi verði umboðsmanni falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni, í samvinnu við ólíka aðila. Eiga þau gögn að liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og gert er ráð fyrir í ákvæðum barnasáttmálans.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði að umboðsmaður skuli hafa virkt samráð við börn og hafa hóp barna sér til ráðgjafar en slíkur hópur hefur verið starfandi hjá embættinu um árabil án þess að kveðið sé á um það í lögum.

Loks er í barnasáttmálanum gerð krafa um þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll málin sem þau varða og að tillit beri að taka til skoðana þeirra. Því er lagt til að lögfest verði ákvæði um að reglulega skuli halda barnaþing þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og að niðurstöður þingsins verði kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum og ekki síður alþingismönnum.

Verði frumvarpið að lögum hefur það áhrif á starfsemi umboðsmanns barna með auknum skyldum og verkefnum. Embættið hefur áætlað þann kostnað sem hlýst af fyrirhuguðum breytingum og er gert ráð fyrir kostnaðarauka sem nemur 24 millj. kr. á ári næstu fimm ár til að mæta þörf fyrir fleira fólk vegna nýrra verkefna. Auk kostnaðar við barnaþing er gert ráð fyrir viðbótarstöðugildi hjá embættinu, eflingu kynningarstarfs og endurnýjun vefs. Er gert ráð fyrir þessum viðbótarútgjöldum í fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi árið 2019.

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessu frumvarpi sýni ríkisstjórnin í verki að hún tekur alvarlega þær skuldbindingar sem felast í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Með frumvarpinu er ætlunin að styrkja stöðu barna í íslensku samfélagi með því að auka þátttöku þeirra í samfélagslegri umræðu og í allri ákvarðanatöku og stefnumótun í málefnum barna, ekki síst með tilkomu barnaþings. Jafnframt mun ríkisstjórnin leggja aukna áherslu á samstarf um málefni barna og ungmenna þvert á ráðuneyti eins og við ræddum í umræðum um síðasta mál þar sem samvinna þvert á ráðuneyti hlýtur einmitt að vera mjög mikilvæg í svona málaflokki. Við erum að hugsa um heilbrigðisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti en líka umhverfisráðuneyti, þess vegna utanríkisráðuneyti ef við viljum setja málefni barna til að mynda í aukinn forgang eins og við höfum þegar gert með störfum okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Þörf er á því að samhæfa betur þjónustu við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á öllum sviðum opinberrar þjónustu og tryggja réttindi þessa hóps. Í samræmi við það undirrituðu hlutaðeigandi ráðherrar og Samband íslenskra sveitarfélaga viljayfirlýsingu 7. september sl. um aukið samstarf í málefnum er varða velferð barna. Í þeirri yfirlýsingu felst að ráðuneyti og sveitarfélög muni vinna saman að því að brjóta niður múra sem kunna að myndast á milli kerfa þegar tryggja þarf börnum heildstæða og samhæfða þjónustu.

Auk fyrrgreindra sjónarmiða um samhæfingu innan Stjórnarráðsins er jafnframt reynt að stuðla að virkri þverpólitískri umræðu og samstöðu um málefni barna með samvinnu stýrihópsins við þingmenn og þingnefndir. Samhliða stýrihópnum hefur verið sett á laggirnar nefnd þingmanna með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi þar sem kraftar verða sameinaðir með það að markmiði að styrkja og samhæfa þjónustu við börn, tryggja að hún sé veitt þegar þörf krefur, sjá til þess að hún sé samfelld og gangi þvert á kerfi.

Áhersla verður lögð á skýra ábyrgð og verkaskiptingu og eftirfylgni þjónustu tryggð. Stýrihópurinn mun, auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, starfa með þingmannanefndinni. Fyrsti fundur hennar var 9. október sl.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta samfélag væri um margt betra ef við hlustuðum meira á sjónarmið barna. Þetta hefur verið mér hugleikið allt frá því að ég fór að lesa bækur téðrar Guðrúnar Helgadóttur sem talaði mjög fyrir barnalýðræði og skrifaði meira að segja heila bók um Pál Vilhjálmsson sem stofnaði samtök krakka sem höfðu það að markmiði að gera heiminn betri. Eins og Páll Vilhjálmsson orðaði það gjarnan þegar hann sá fréttir í sjónvarpinu af hræðilegum voðaverkum í fjarlægum löndum: Sjáðu nú þetta, þetta hefði krakki aldrei gert.

Vafalaust hafði Páll töluvert fyrir sér í því. Það er nefnilega mikilvægt að hlusta á sjónarmið barna. Ég hef beitt mér fyrir þeim allt frá því að ég sat sem fulltrúi í fræðsluráði Reykjavíkur og fór af stað með tilraunaverkefni á sviði barna- og ungmennalýðræðis. Þegar ég varð mennta- og menningarmálaráðherra fékk ég tækifæri til að hafa áhrif á aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem lýðræði varð einn af hornsteinum námskrárinnar. Frábær verkefni hafa verið unnin á öllum þessum skólastigum síðan til þess að efla lýðræðisvitund barna og ungmenna og kenna þeim að starfa í og læra um lýðræði með því að vinna í lýðræði. Ég er þakklát fyrir að fá tækifæri til að leggja til þetta nýja fyrirkomulag, barnaþing, sem ég held að eigi eftir að verða lyftistöng í umræðu um málefni barna en líka verða okkur, ráðherrum, ríkisstjórn og þingmönnum, gríðarlega mikilvægt tækifæri til að fá bein og milliliðalaus samskipti.

Ég sé fyrir mér að þar muni sitja börn hvaðanæva að af landinu, það verði kallað eftir tilnefningum, að skólar hringinn í kringum landið nýti tækifærið og nýti það sem þeir hafa einmitt í aðalnámskránni og þau verkefni sem þeir hafa verið að vinna innan hennar til að setja mál á dagskrá þessa þings. Ég held að það skipti síðan alveg gríðarlegu máli að við sem eldri erum verðum tilbúin til að hlusta þegar að því kemur, að við forgangsröðum því að mæta á barnaþing þegar við fáum það tækifæri.

Ég er nokkuð viss um að aukin umræða og samræður okkar við börn og ungmenni hafa jákvæð áhrif á samfélagið allt, ekki bara málefni barna. Þau geta kennt okkur alveg gríðarlega margt. Sömuleiðis tel ég mikilvægt að umræða um börn og stöðu þeirra í samfélaginu verði reglulega á dagskrá Alþingis og hef því óskað eftir því að gera Alþingi á næstunni grein fyrir skýrslu sem umboðsmaður barna hefur skilað til forsætisráðherra.

Svo legg ég til að ég verði kölluð forsætis- og barnamálaráðherra. Nei, þetta var grín líka, bara fyrir hv. þm. Ólaf Ísleifsson, en að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og allsherjar- og menntamálanefndar.