149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Þar kom fram sú skýra afstaða hv. þingmanns og væntanlega flokks hennar að Samfylkingin hafni myntráðsleiðinni, sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni. Ég er sammála hv. þingmanni um það.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann vegna orða hennar um að hún telji það bestu leiðina fyrir Ísland — hún sagði að kreppunni hefði ekki verið velt yfir á almenning á evrusvæðinu, en ég veit ekki hvort almenningur í Grikklandi er t.d. sammála hv. þingmanni um það, hann var mjög ósáttur við hagstjórn Evrópusambandsins í gegnum þá kreppu — hvort hún sé ekki samt sammála því að taka þurfi á hagstjórnarvandanum á evrusvæðinu, að breyta þurfi utanumhaldi evrunnar. Og eigi evran að lifa af, hvort það sé ekki augljóst — og ég vitnaði áðan í Thomas Piketty — að samræma þurfi (Forseti hringir.) ekki aðeins peningastefnuna heldur einnig stefnu í ríkisfjármálum og skattamálum á evrusvæðinu.