149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns, um það hvort okkur hefði vegnað betur með aðra mynt, er já. Ég er nokkuð sannfærður um það. Ég held að árangur okkar sé þrátt fyrir krónuna en ekki vegna krónunnar og ég held að við vanmetum mjög gjarnan verðmæti stöðugleika fyrir hagkerfið okkar, fyrir atvinnulífið okkar, fyrir heimilin okkar. Verðlagsstöðugleiki og gengisstöðugleiki skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Það er ágætt að benda á að þrátt fyrir að við höfum náð undraverðum árangri á undanfarinni öld eða svo þá er það fyrst og fremst í auðlindatengdum greinum. Við höfum náð að byggja upp þær atvinnugreinar sem eru með einhverjum hætti hlekkjaðir við landgrunnið okkar. Annað höfum við misst úr höndunum í gegnum tíðina, menn hafa einfaldlega valið sér að starfa annars staðar.

Við höfum t.d. ekki náð neitt sérstaklega merkilegum árangri í hugverka- og tæknigreinum þó að við eigum mörg mjög góð fyrirtæki þar. Á heildina litið hefðum við getað gert miklu betur, sérstaklega miðað við það að við erum að mínu viti einstaklega hugvitssöm þjóð. Það eru einhver frumkvöðulsgen, held ég, sem í aldanna rás hefur sýnt sig aftur og aftur og útskýrir kannski af hverju við erum svona fjári góð í að eiga við allar þessar sveiflur.

En ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef við hefðum búið við stöðuga mynt og lægra vaxtastig hefði okkur vegnað talsvert betur. Og það er ágætt að hafa það í huga, þegar við berum okkur saman við nágrannalönd okkar, sérstaklega þegar sá samanburður er mjög hagfelldur núna, að það eru sjálfsagt fáar Norðurlandaþjóðir sem hafa tekið jafn oft fram úr hinum Norðurlöndunum hvað varðar lífskjör og Ísland. En við höfum alltaf misst þau úr höndum okkar þegar slær í bakseglin. Það er kannski ágætt að gleyma því ekki.

Ég held að það sé mjög vert að hafa þetta í huga þegar við metum heildarávinninginn af blessuðu krónunni okkar og hvernig okkur gæti farnast með aðra og stöðugri mynt en hana.

Hvað varðar síðari spurningu (Forseti hringir.) hv. þingmanns þá er mjög misjafnt með þessar smærri þjóðir hvernig þeim hefur farnast. (Forseti hringir.) En það er ágætt að hafa í huga land eins og Lúxemborg sem hefur búið við fast gengi, held ég, frá 1970 eða þar um bil og vegnað ágætlega sýnist mér.