149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það sem ég vil koma inn á þessari umræðu er þegar ríkið færir ákveðin verkefni yfir til sveitarfélaga. Það virðist vera regla fremur en undantekning að nægilegir fjármunir frá ríkinu fylgi ekki með. Tökum dæmi af nýsamþykktum lögum um NPA eða notendastýrða persónulega aðstoð til handa fötluðum. Ríkið greiðir 25% með hverjum samningi en sveitarfélögin 75%. Hér er um dýrt úrræði að ræða. Þjónustan er að breytast úr stofnanavæðingu yfir í einstaklingsbundna þjónustu. Í sumum tilfellum þarf allt að fjóra til fimm starfsmenn til að halda utan um þetta nýja fyrirkomulag fyrir hvern einstakling. Með lögunum er kominn lögvarinn réttur fatlaðra til að fá þessa þjónustu sama hvað hún kostar. Að sjálfsögðu er þetta mikil réttarbót en það verða þá að vera til peningar til að veita þjónustuna.

Sveitarfélögin þurfa einnig að halda úti þeim úrræðum sem voru áður notuð eins og sambýlum, vegna þess að NPA-einstaklingur á rétt á því að snúa aftur til baka, t.d. í sambýli, óski hann þess. Þetta er allt í boði sveitarfélaganna, verulega aukin þjónusta sem ríkið ákveður en lætur sveitarfélögin borga þrjá fjórðu hluta kostnaðarins.

Reykjavíkurborg hefur þungar áhyggjur af málinu. Það kom fram á fundi nefndarinnar á sínum tíma. Hvernig haldiði þá að minni sveitarfélög geti tekist á við þetta verkefni? Þau hafa einfaldlega ekki bolmagn til þess.

Annað dæmi um það hvernig ríkið setur sveitarfélögunum verkefni án þess að fjármunir fylgi er nýja persónuverndarlöggjöfin frá Evrópusambandinu, mál sem mun kosta sveitarfélögin meira en einn milljarð á ári.

Herra forseti. Ef efla á sveitarstjórnarstigið þarf ríkið fyrst að taka til heima hjá sér og átta sig á því að ekki er endalaust hægt að leggja nýjar fjárhagslegar byrðar á sveitarfélögin án þess að fjármunir fylgi. Þessum stóra bróður samskiptum ríkis og sveitarfélaga verður að linna. Það verður að tryggja tekjustofna sveitarfélaganna. Það er á ábyrgð ríkisins.