149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Of lengi höfum við látið ánetjunarsinna og úrtölumenn ráða ferð í loftslagsmálum. Málflutning þeirra má kenna við strútskýringar því að hann snýst ævinlega um að stinga höfðinu í sandinn. Þetta er undanhald samkvæmt áætlun en óhætt er að segja að barist sé um hvert hús.

Strútskýrandinn segist í fyrsta lagi hafa allan rétt á að draga í efa niðurstöður vísindamanna og að fólk sem mótmælir slíku tali sé haldið pólitískri rétthugsun, sé góða fólkið.

Í öðru lagi, segir strútskýrandinn, er ekkert að hlýna í veröldinni. Snjóaði ekki í gær?

Í þriðja lagi segir strútskýrandinn: Þó að það sé að hlýna í veröldinni er það ekki vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum heldur er þetta bara náttúran sjálf, eldgos.

Í fjórða lagi bendir strútskýrandinn á að þó að það sé að hlýna á jörðinni vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum séu það góðar fréttir, við getum farið í sólbað, gróðurinn eykst.

Í fimmta lagi segir strútskýrandinn að þó að hlýnunin muni hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf mannanna hér á jörðu sé of seint að bregðast við, of dýrt sé að hætta að nota olíu og nær sé að einbeita sér að því að útrýma hungri meðan beðið er eftir því að finnist annars hnöttur þar sem mannkynið getur tekið sér bólfestu.

Virðulegi forseti. Hlustum ekki á eyðingaröflin, letingjana sem ekkert vilja leggja á sig og engu kosta til en trúa því að endalaust megi ganga á gjafir jarðarinnar án afleiðinga. Við megum engan tíma missa, þetta er mikilvægasta mál mannkyns.