149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC).

[11:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Þó að vissulega sé ástæða til að hafa áhyggjur og taka ábendingarnar alvarlega er ýmislegt sem er að vinnast ágætlega á hinu góða landi okkar. Það hefur verið nefnt í umræðunni að sjávarútvegurinn hafi þegar náð árangri sem uppfyllir markmiðin sem snúa að heildarlosun. Við framleiðum umhverfisvænasta ál í heimi á Grundartanga, í Reyðarfirði og úti í Straumsvík. Við erum að ná býsna góðum árangri, og eigum að gera miklu betur, í uppgræðslu lands og skógrækt, þannig að það er ekki tómt svartnætti sem blasir við okkur.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að við verðum að horfa á hvernig þetta snýr að okkur í hnattrænu samhengi. Víða eru stór verksmiðjusamfélög keyrð áfram á kolum og útblástur er ótæpilegur hjá slíkum þjóðum. Á sama tíma erum við með megináhersluna á umferð í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, af þeim 34 atriðum sem þar eru tilgreind snúa 11 að umferð.

Það sem ég hef áhyggjur af í þeim málum er að við séum að setja áhersluna þar sem mjög lítið er að sækja. Ef við gefum okkur að talan sé rétt og að vegaumferð skili 3–5% af útblæstri á landinu leggjum við algerlega ofuráherslu á það miðað við þann árangur sem hægt er að ná á því sviði. Það er hlutur sem ég held að við verðum að hafa í huga þegar við tökum umræðuna áfram, að við setjum orkuna og áherslurnar þar sem árangur getur náðst.