149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa góðu og nauðsynlegu umræðu. Margt mjög mikilvægt og gagnlegt hefur komið fram hér í dag. Þegar ég hugsa um geðheilbrigðismál velti ég fyrir mér: Hvenær ætlum við í raun og veru að meðhöndla eða nálgast geðheilbrigðismálin sem alvöruheilbrigðisúrræði? Við erum enn þá uppfull af fordómum um að þetta séu ekki alvöruveikindi, þetta sé ekki alvöruviðfangsefni heilbrigðiskerfisins. Það skín eiginlega í gegn hvernig sem við lítum á það. Við niðurgreiðum ekki enn sálfræðiþjónustu með framlagi sjúkratrygginga með sama hætti og við gerum varðandi flest önnur heilbrigðisúrræði, alvöruheilbrigðisúrræði.

Styrkir stéttarfélaga til sálfræðiþjónustu eru ekki undanþegnir frá skatti eins og styrkir stéttarfélaga til t.d. sjúkraþjálfara, er alvöruheilbrigðisþjónusta. Ég held að það sé kannski lykillærdómurinn af þessari umræðu okkar. Við verðum að láta af slíkum fordómum. Hér er um alvörumál að ræða. Hér er um alvöruheilbrigðisvandamál að ræða. Hér er um mikla þörf á alvöruheilbrigðisúrræðum að ræða.

Við þekkjum alveg kostnaðinn. Við vitum, sjáum og horfum upp á fólk flosna upp úr daglegu lífi á hverjum degi vegna geðrænna vandamála. Við vitum líka alveg að vandamálin batna ekkert með því að horfa fram hjá þeim með því að veita ekki nauðsynlega snemmbæra aðstoð. Við sjáum alveg fjölgunina á örorku vegna geðrænna vandamála. Þetta eru vandamál sem við verðum að taka á af fullum þunga.

Við þekkjum forvarnagildi góðrar geðheilbrigðisþjónustu. Við þekkjum sparnaðinn sem af því hlýst á seinni stigum bæði fyrir heilbrigðis- og velferðarkerfið. Það er löngu tímabært að við förum að takast á við geðræn vandamál, heilbrigðisúrræði vegna geðrænna vandamála af sömu alvöru og öðrum hlutum heilbrigðiskerfisins. Það þýðir auðvitað að við þurfum að stórauka framlög til þessara mála innan heilbrigðiskerfisins. Þar erum við enn að ræða í okkar framlögum, okkar fjárskömmtunum til geðheilbrigðishluta kerfisins allt aðrar tölur en þegar við tölum um hið svokallaða alvöruheilbrigðiskerfi.

Þetta lýsir því að þrátt fyrir allan þann árangur sem náðst hefur í þessum málaflokki, þrátt fyrir að við höfum vissulega gengið langan veg í þróun fram á veginn í að draga úr fordómum vegna geðrænna sjúkdóma, eigum við enn langt í land og ekki síst hér inni í þessum sal. Og það er kominn tími til að við breytum því.