149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ábyrgðin sem hvílir á okkur er að við erum með upplýsingar frá fyrrverandi dómurum sem tala um misbeitingu á valdi, þ.e. að skrifstofa stjórnsýsludómstóla sem sér um skriffinnskuna, brjóti bæði á dómurum og almennum borgurum. Þetta erum við með í höndunum og erum búin að vera með í höndunum svo lengi og það hefur velkst um í kerfinu.

Þegar dómstólalögunum er breytt árið 2016 segir allsherjar- og menntamálanefnd að hún hafi ekki tíma til að klára þetta en vísar til endurskoðunarinnar, sem var einmitt hjá forsætisnefnd og er að koma út núna sem frumvarp. Það er alltaf verið að fresta því.

Umboðsmaður benti fyrst á það árið 2003 að ekki væri hægt að tryggja réttaröryggi borgara gagnvart stjórnsýslu dómstólanna. Og nú erum við hér, 15 árum síðar.

Mín nálgun á málið er sú að ég, sem aðili í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, beri ábyrgð á því ef hlutirnir hreyfast ekki áfram. Ég er byrjaður að tala við alla aðila máls um það hvernig við klárum púslið. Kannski er nóg að kasta stjórnsýslulögum yfir stjórnsýslu dómstólanna. Ef upplýsingalögum er kastað yfir stjórnsýsluna, eins og forsætisráðherra ætlar að gera, erum við alla vega komin með upplýsingagjöf. En við erum ekki komin með virkt eftirlit með því að þeir brjóti ekki á dómurum. Dómarar eru búnir að segja okkur að brotið sé á þeim í starfi og þá geta þeir ekki verið sjálfstæðir. Við erum búin að fara yfir lögin og það er þannig að hægt er að vísa dómara úr embætti, jafnvel tímabundið o.s.frv., með innra eftirliti, en ef stjórnsýsla dómstólanna sjálf brýtur af sér er enginn annar æðri úrskurðaraðili þar inni.

Ef við viljum gera þetta vel þurfum við að klára púslið. Það gengur ekki að hafa þetta opið áfram. Það verður að klára púslið.

Ég mun ganga eftir því að það verði gert og ég vona að ég fái liðsinni allra (Forseti hringir.) hlutaðeigandi í málinu við að finna út hvernig nákvæmlega við gerum það, við tökum það samtal í nefndinni. Um leið og ég sé að hægt er að klára púslið er ég sáttur og þá höfum við uppfyllt skyldu okkar.