149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað margt sem ég og hv. þingmaður skiljum ekki. Ég skil hins vegar ekki hvernig hann ætlar að leysa þennan vanda, en það kannski kemur í ljós við þinglega meðferð þessa máls. Við áttum hér umræður í febrúar á síðasta ári um matvælaöryggi og matvælaframleiðslu. Þá sagði þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hún var spurð um samkeppnismál og búvörulög, með leyfi forseta:

„Já, við skulum skoða þau sérstaklega, m.a. vinna út frá forsendum sem eru gegnsæi og jafnræði.“

Það átti að skoða þetta allt saman og hún sagði í lokin:

„En við verðum auðvitað að fara varlega.“

Er hv. þingmaður sama sinnis og þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Telur hann að þetta frumvarp sé merki um að hér sé verið að fara að þeim varnaðarorðum sem þáverandi (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra viðhafði í febrúar 2017: Við skulum fara varlega?