149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er álíka fyndið að heyra flutningsmenn þessa frumvarps tala um að þeir séu talsmenn neytenda eins og að heyra Félag atvinnurekenda segja það sama, alveg furðulegt, enda er samhljómur milli þessara aðila. Þetta er sama ræðan, sama röddin — ekki sömu fötin eins og maðurinn talaði um hér um árið, en þetta er nákvæmlega sami sónninn sem við heyrum frá Félagi atvinnurekenda og því ágæta fólki sem flytur þetta frumvarp.

Virðulegur forseti. Mjólkuriðnaður er undanþeginn ákveðnum reglum samkeppnislaga. Það kemur fram í 71. gr. laga um landbúnaðinn að þar eru ákveðnar undanþágur. Menn mega vinna saman. Menn mega sameinast. Menn mega hagræða. Það er það sem þarf að halda og það er það sem ég held að þurfi líka fyrir kjötiðnað í landinu, til að hann geti náð þeirri hagræðingu og eflingu sem hægt er að ná og þarf að ná.

Það er alveg magnað að um leið og hv. þingmenn, flutningsmenn frumvarpsins, leggja til að samkeppnislög gildi ekki um mjólkurframleiðsluna, leggja til að þessi takmarkaða undanþága verði tekin úr sambandi, höfum við dóma frá Evrópudómstólnum, síðan í nóvember 2017, þar sem niðurstaðan er sú að í landbúnaði innan Evrópusambandsins sé heimilt, með ákveðnum takmörkunum, (ÞorstV: Miklum.) að hafa samráð um verð og magn. Hér kallar hv. þingmaður fram í: Miklum takmörkunum. Það eru miklar takmarkanir í lögunum sem við ræðum hér er varða samkeppni í mjólkuriðnaði. Það er ekki þannig að menn geti gert það sem þeim sýnist. Það eru ákveðnar heimildir sem á að halda, sem hafa reynst nauðsynlegar og munu reynast nauðsynlegar og við þurfum að fá fyrir fleiri greinar í landbúnaði.