149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:05]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma upp í lok þessarar góðu umræðu sem hefur farið hér fram um mjög mikilvægt málefni og koma aðeins inn á hluti sem ég verð að segja að pirra mig svolítið í umræðunni vegna þess að menn virðast ekki alveg skilja það sem gengur og gerist í þessu, hvernig hlutirnir gerast í landbúnaðarpólitíkinni.

Áður en ég fer að ræða um mjólkina ætla ég að minnast á títtnefnt 29% verðfall til bænda sl. haust, að það hafi ekki skilað sér út á markað. Málið er einfaldlega þannig, og það ættu þeir að vita sem hér hafa starfað undanfarin ár, að laun í afurðastöðvum hafa hækkað um 40% á sl. tveimur árum. Þegar verð til neytenda hækkar ekki í afurðastöðvunum og laun hækka þarf einhvers staðar að taka af, þannig að það sé sagt. Það er ekki þannig að þarna hafi fólk verið arðrænt af afurðastöðvum o.s.frv., sem er bara bull. Þetta er sú staða sem var uppi.

Varðandi samtök bænda og sölumál bænda fer því fjarri að Bændasamtök Íslands geti samið um verð fyrir bændur. Það er bara alrangt. Sauðfjárbændum t.d. er óheimilt að semja um verð. Sauðfjárbændur mega gefa út viðmiðunarverð. Punktur. Þannig er það nú. Samtök bænda eru regnhlífarsamtök nokkurra sérsamtaka sem fara með umboð okkar bænda í samningum við ríkið. Því var haldið fram að þetta væri einstakt í heiminum nema kannski í Noregi, sem er alrangt líka. Það þekkist meira að segja í Evrópusambandinu, bændur og bændasamtök semja við Evrópusambandið. Þetta eiga menn að þekkja. Bændasamtök Íslands eru frjáls félagasamtök, þau eru ekki skyldusamtök, það er ekki skylda að vera í þeim. Þau fara með okkar samningsumboð, sjá um hagsmunagæslu okkar sem er virkilega nauðsynleg og þyrfti að gera miklu meira af, þannig að það sé sagt hér.

Ég velti því einnig fyrir mér að í þessu frumvarpi er talað um að menn þurfi ekki undanþágu frá samkeppnislögum. Minn skilningur hingað til á þessum blessuðu samkeppnislögum er sá að ef undanþága er tekin af Mjólkursamsölunni þarf að splitta henni upp. Það hefur hingað til verið sagt í okkar eyru. Ef það er misskilningur fögnum við því vissulega. En því miður held ég að ég sé að fara með rétt mál í því að ef Mjólkursamsalan hefur ekki þessa undanþágu frá samkeppnislögum þarf að splitta henni upp. Og hvað gerist þá varðandi söfnun á mjólk og þess háttar eins og margoft hefur komið hérna fram, á þá bara eitthvert markaðsráðandi fyrirtæki, ef einhver úti í bæ segir því að safna allri mjólk, að keyra á Rauðasand t.d. og taka mjólkina þar og keyra hana á Selfoss? Ég bið menn að velta þessu fyrir sér, hlutirnir eru ekki alveg svona einfaldir myndi ég segja. Það er ekki bara af-því-bara sem Mjólkursamsalan er með þessa undanþágu frá samkeppnislögum.

Maður hefur velt því fyrir sér hvort þeir sem lögðu fram þetta frumvarp hafi velt því fyrir sér hvað gæti gerst, hver fórnarkostnaðurinn væri t.d. við aukna samkeppni og þess háttar. Hafa menn velt fyrir sér áhrifum á byggðina? Ég held ekki. Alla vega kemur það ekki fram í frumvarpinu. Þetta þurfa menn að hafa í huga og það er mjög mikilvægt.

Umræðan hérna hefur vonandi leitt okkur að því að við erum í alþjóðlegri samkeppni og við þurfum að vera með öflug fyrirtæki sem geta stundað hörkumarkaðsþróun, verið með nýjar og flottar vörur og boðið neytendum hágæðavöru á góðu verði. Það er lykilatriði sem við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum um (Forseti hringir.) matvælaframleiðslu á Íslandi. Það verður að hugsa það þannig að við séum sjálfum okkur nóg með mjög góð matvæli.