149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[22:10]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Orð hv. þingmanns vöktu athygli mína kannski hvað varðar tvennt í þessu, þá fyrst varðandi Bændasamtökin sem slík. Það er alveg rétt að það er ekkert verið að leggja bann við því í þessum breytingum sem hér eru lagðar til að bændur starfi saman í samtökum að sameiginlegum hagsmunum sínum, fjarri því. Það er kannski fyrst og fremst verið að taka á þeim þætti laganna sem snýr að því að bændur séu bundnir af samningum þessara sömu samtaka óháð aðild sinni eða ekki. Það er það sem má kannski velta fyrir sér í ljósi t.d. umræðunnar um það hvort bændur séu launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur.

Við þekkjum alveg í tilfelli launþegahreyfingarinnar að þar eru vissulega fyrirtæki og launþegar bundin af þeim samningum sem gerðir eru á vinnumarkaði um lágmarkskjör launþega, en það að atvinnurekendur séu bundnir af samningum, verðsamningum, samningnum um fyrirkomulag á ríkisstuðningi eða öðru slíku, samkomulagi við stjórnvöld eða hverja aðra aðila sem samtökin gera samninga við, án þess að eiga aðild að samtökum tel ég ekki eðlilegt fyrirkomulag sjálfstæðra atvinnurekenda. En þeir hafa að sjálfsögðu fullt félagafrelsi, fullt frelsi til að velja sér samtök, stofna þau eða taka þátt í samtökum sem þegar eru fyrir hendi.

Ég velti þessu fyrir mér og spyr hv. þingmann: Er virkilega þörf á því að það sé í raun og veru þetta ígildi skylduaðildar, getum við kallað, þ.e. að bændur, sjálfstæðir atvinnurekendur, séu bundnir af ákvörðunum samtaka sem þeir eiga jafnvel ekki aðild að?