149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

staðan gagnvart Bretlandi vegna Brexit.

[15:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður vísar til hins augljósa, hversu mikilvægt það er fyrir okkur að tryggja framtíðarfyrirkomulag viðskipta og samskipta okkar við Breta. Bretland er okkar næstmikilvægasta viðskiptaland og munar um minna. Hv. þingmaður nefndi margar tölur sem sýna hversu mikilvægt það er að við verðum áfram í ekki síðri samskiptum en við erum í núna. Þá er ég að vísa í viðskiptamálin en það má líka benda á að Bretland er eitt af þeim löndum sem eru með sömu strategísku hagsmuni og við Íslendingar. Því er augljóst að það er mikilvægt fyrir okkur að starfa saman með þeim og öðrum grannríkjum og bandamönnum okkar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, umhverfismálum, norðurslóðamálum og flestum þeim málum sem við störfum saman að á alþjóðavettvangi, ég tala nú ekki um í mannréttindamálum og öðru slíku.

Hv. þingmaður nefndi ágætlega hvernig staðan er. Bretar geta ekkert byrjað að semja fyrr en í fyrsta lagi í apríl 2019. En við höfum hins vegar ekki setið auðum höndum og frá því að ég settist í stól utanríkisráðherra og í báðum ríkisstjórnum hafa menn alltaf verið að búa sig undir allar þær sviðsmyndir sem gætu komið upp, hvort sem það verður samningur við ESB um útgöngu, sem við munum geta nýtt okkur með einhverjum hætti, eða án samnings. Þau viðbrögð sem við höfum fengið frá breskum stjórnvöldum hafa verið mjög jákvæð. Það var ánægjulegt að heyra t.d. yfirlýsingu Theresu May sem kom fram á fundi með forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir nokkrum dögum.

Það er ekkert sem bendir (Forseti hringir.) þess að ekki muni nást samningur á milli okkar og Breta. En ég hef það fyrir reglu að fagna aldrei fyrr en í mark er komið. Við viljum ekki sjá verri viðskiptakjör en við höfum núna. (Forseti hringir.) Helst vildum við sjá betra og nánara samstarf.