149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

staðan gagnvart Bretlandi vegna Brexit.

[15:42]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætlega skýr svör. Ég hygg að ég geti talað fyrir munn flestra, ef ekki allra, hér inni þegar ég segi að við munum styðja hann í einu og öllu þegar kemur að því að ganga frá fríverslunarsamningi við Bretland. Ég held að hagsmunir okkar liggi í því. Ég hef sjálfur talað fyrir því að við myndum fríverslunarsvæði hér í Norðurhöfum við Bandaríkin, Kanada, Grænland, Færeyjar, Noreg og Bretland.

Ég held að það sé heillandi framtíðarsýn. En tækifærin til að efla samskiptin við Breta þegar þeir hafa gengið úr Evrópusambandinu eru mikil og við eigum að nýta þau. Ég verð fremstur í flokki að styðja ráðherrann í að ná hagstæðum samningi sem er góður fyrir bæði Breta og okkur Íslendinga.