149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi mismælt sig og ætlað að tala um enskukunnáttu Íslendinga þegar kemur að því að lesa ársreikninga. Ég tel að hann hafi rétt fyrir sér í því að oft og tíðum kann tungumálið að vera þannig að það er ekki fyrir hvern sem er að lesa það þótt viðkomandi kunni að vera ágætlega að sér á enskri tungu. Þá kemur að hinu að það er líka þannig að stór hluti almennings áttar sig ekki á ársreikningum jafnvel þótt þeir séu á íslensku, og þá komum við inn á á fjármálalæsi og mikilvægi þess að efla það.

Ég ætla að taka heils hugar undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að fyrirtæki séu trúverðug og hafi traust og trú íslensku þjóðarinnar og mikilvægi þess að við eflum hlutabréfamarkaðinn okkar og Íslendingar sjái tækifæri í því að fjárfesta í fyrirtækjum. Ég held að eitt leiði af öðru. Þar af leiðandi ítrekum við það í umsögn okkar og ræddum töluvert í nefndinni um mikilvægi trúverðugleikans í íslensku viðskiptalífi og að einn þáttur í því sé að almenningur geti nálgast ársreikninga fyrirtækja á íslenskri tungu.

Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að svo verði áfram. Þetta frumvarp er eingöngu að tryggja þann möguleika, sem var reyndar áður fyrir breytinguna árið 2016, að fyrirtæki geti líka lagt fram frumrit ársreikninga á ensku. Það sem láðist að gera í breytingunum 2016 var að heimila ensku framlagninguna. Fyrirtækin vísa í það að áður hafi þau getað lagt fram ársreikninga bara á ensku. Það sem við erum að tryggja núna er möguleikinn til að leggja fram ársreikning á ensku og um leið að tryggja að alltaf liggi fyrir eintak á íslensku í íslensku ársreikningaskránni.