149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það var nauðsynlegt að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem þau hafa ekki uppfyllt þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi líkt og úttekt alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF sýndi, en skýrsla um úttekt hans á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka var birt 6. apríl sl.

Það er kannski rétt að útskýra þennan framkvæmdahóp eða fara í örfáum orðum yfir tilurð hans. Þessi FATF-hópur, sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „Financial Action Task Force“, en ávallt er vísað til hans sem FATF, var stofnaður á fundi leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims í París í júlí 1989. Hlutverk hópsins er að vinna að aðgerðum til að koma í veg fyrir að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð og baráttu gegn fjármögnun hryðjuverka.

Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur að tilmælum FATF. FATF er leiðandi á alþjóðavísu og byggja peningaþvættistilskipanir Evrópusambandsins á tilmælum hópsins.

Hlutverk og starfssvið FATF skiptist í þrennt: Í fyrsta lagi að semja tilmæli fyrir aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í öðru lagi að leggja mat á aðgerðir ríkja við innleiðingu tilmælanna og í þriðja lagi rannsaka og læra að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilmæli FATF eru 40 talsins og var fylgni Íslands við þau könnuð í skýrslunni sem ég vísaði til hér fyrr í ræðu minni, auk þess sem skilvirkni við framkvæmd þeirra var athuguð. Hafi Ísland ekki brugðist með fullnægjandi hætti við athugasemdum sem komu fram í skýrslu FATF í júní á næsta ári er hætta á því að Ísland verði sett á lista yfir áhættusöm ríki. Í því felst að á alþjóðavettvangi verði varað við viðskiptum við íslenska aðila nema að undangenginni aukinni áreiðanleikakönnun, auk þess sem það getur haft áhrif á lánshæfismat íslenskra fyrirtækja sem og íslenska ríkisins.

Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir er því hvort tveggja í senn, viðbrögð við áðurgreindri skýrslu FATF og innleiðing á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, sem er frá árinu 2015, og einnig á völdum ákvæðum úr fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins, sem er frá þessu ári. Ákveðið hefur verið að fjórða peningaþvættistilskipunin sem samþykkt var á þessu ári verði tekin upp í EES-samninginn þann 5. desember nk.

Virðulegi forseti. Meginefni frumvarpsins byggir á grunni gildandi laga og uppsetning þeirra er að mörgu leyti óbreytt. Það eru áfram skilgreindir þeir aðilar sem eru tilkynningarskyldir en undir þá aðila fellur sú starfsemi og starfsstéttir sem helst geta verið misnotaðar til að þvætta fé. Þessum aðilum er skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum og tilkynna til peningaþvættisskrifstofu vakni grunur hjá þeim um að fjármuni eða viðskipti megi rekja til refsiverðrar háttsemi. Með peningaþvættisskrifstofu vísa ég til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu eins og þetta frumvarp vísar til.

Tilkynningarskyldum aðilum er jafnframt skylt að hafa til staðar viðeigandi kerfi og ferla til að greina grunsamleg viðskipti eða færslur og varðveita gögn um viðskiptasambönd sín með traustum hætti í ákveðinn tíma. Þá er þeim jafnframt skylt að sjá til þess að starfsmenn hljóti reglulega viðeigandi þjálfun og endurmenntun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun. Hlutverk eftirlitsaðila er að hafa með höndum stjórnsýslueftirlit með tilkynningarskyldum aðilum en í því felst að tryggja að þeir hafi til staðar viðeigandi kerfi og ferla, framkvæmi áreiðanleikakannanir og sinni öðrum skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt lögum.

Helstu breytingum á gildandi lögum samkvæmt þessu frumvarpi sem ég mæli hér fyrir má skipta í sex hluta. Ég ætla að víkja stuttlega að þeim. Í fyrsta lagi eru ákvæði um einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla gerð ítarlegri en í gildandi lögum og munu þau taka jafnt til innlendra sem erlendra aðila. Með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla er átt við aðila sem eru í áhættuhópi vegna stöðu sinnar. Hér er m.a. átt við þjóðhöfðingja, ráðherra, alla þingmenn sem hér sitja alla jafna í þessum sal, og dómara. Tilkynningarskyldum aðilum er gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina hvort viðskiptamaður þeirra teljist í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og ef svo er ber þeim að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laganna.

Í annan stað er lagt er til að ákvæði um raunverulega eigendur verði gert ítarlegra og að fjallað verði um hver teljist vera raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Raunverulegur eigandi telst hver sá einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Undanskildir eru lögaðilar sem skráðir eru á skipulegum markaði.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að öllum opinberum aðilum verði gert skylt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, þ.e. sem oft er kölluð peningaþvættisskrifstofa, um grunsamleg viðskipti. Mikilvægt er að kveðið sé á um þetta í frumvarpinu svo ekki leiki vafi á að slík tilkynningarskylda víki þagnarskyldu stjórnvalda til hliðar.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að efla til muna samhæfingu, samvinnu og yfirsýn stjórnvalda með því að leggja til að skipun og hlutverk stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði lögfest. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar þeirra stjórnvalda sem eiga aðkomu að málaflokknum og til að gera stjórnvöldum kleift að vinna að markmiðum laganna er lögbundinni þagnarskyldu aflétt milli fulltrúa í stýrihópi. Þó er áréttað að þagnarskylda hvíli á þeim aðilum sem móttaka þagnarskyldar upplýsingar og gögn. Gert er ráð fyrir því að verkefni stýrihópsins muni til viðbótar við yfirsýn og stefnumótun m.a. lúta að áætlanagerð og þátttöku við gerð áhættumats, gefa út leiðbeiningar, viðvaranir og sinna fræðslu, hvort sem er til tilkynningarskyldra aðila, opinberra aðila eða almennings, um málaflokkinn. Enn fremur er gert ráð fyrir því að stýrihópurinn hafi reglulegt samráð, hvort sem er við opinbera aðila, tilkynningarskylda aðila eða aðra hagsmunaaðila, og upplýsi viðeigandi aðila um helstu hættur tengdar málaflokknum þegar tilefni er til.

Í fimmta lagi er gerð tillaga um það að allir tilkynningarskyldir aðilar sæti eftirliti en hingað til hafa t.d. lögmenn og happdrætti ekki sætt eftirliti. Þá er jafnframt lagt til að eftirlit með öðrum en þeim sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins verði á einum stað í stað þess fyrirkomulags sem nú er í gildi þar sem eftirliti er skipt á milli Neytendastofu, eftirlitsnefndar fasteignasala og endurskoðendaráðs. Verði frumvarpið samþykkt mun þetta eftirlit færast yfir til ríkisskattstjóra. Markmið breytinganna er að tryggja að allir tilkynningarskyldir aðilar lúti eftirliti og þá um leið sambærilegu eftirliti. Er það talið til verulegs hagræðis að sameina allt eftirlit, að undanskildum þeim aðilum sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, á einn stað, bæði hvað varðar samræmi við eftirlit og uppbyggingu sérfræðiþekkingar.

Að lokum er lagt til að horfið verði frá því að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi. Sektarmeðferð er flókið og hægfara ferli sem krefst atbeina dómstóla. Því er lagt er til að vikið verði frá þessu og þvingunar- og viðurlagaúrræði færð alfarið í hendur eftirlitsaðila með heimildum til að beita dagsektum, stjórnvaldssektum, birtingu viðurlaga og í alvarlegri tilvikum brottvikningu æðstu stjórnenda eða afturköllun starfsleyfa. Almennt er skilvirkara að stjórnvöld beiti stjórnvaldsviðurlögum en að þau beri mál undir dómstóla, enda í lykilaðstöðu til að meta hvar þurfi að bregðast við á skilvirkan hátt til þess að halda uppi lögum. Telji tilkynningarskyldur aðili að hann hafi að ósekju verið beittur stjórnsýsluviðurlögum getur hann eftir sem áður leitað eftir ógildingu á þeirri ákvörðun hjá dómstólum. Svo því sé haldið til haga eru auðvitað engin mál undan dómstólum tekin.

Virðulegur forseti. Ég hef þá gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.