149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa þörfu umræðu. Ég held að við eigum að varast það í þessu samhengi að einangra hana við kyn og ekki einblína á slæma stöðu ungra drengja í skólum. Veltum bara fyrir okkur almennt líðan barna í skólakerfinu. Ég held að það sé ekkert nýtt undir sólinni, þegar kemur að framgangi drengja í námi eða kynjahlutföllum, heldur er meginmunurinn, þegar við horfum á háskólastigið og breytinguna á kynjahlutföllum þar, að það eru miklu fleiri konur sem sækjast eftir námi í dag en var fyrir 30 til 50 árum. Það er kannski meginskýringin á þessari miklu breytingu sem þar hefur orðið, það er miklu hærra hlutfall þjóðarinnar sem sækir sér háskólamenntun og kannski fyrst og fremst konur. Skoðandi gögn 30 ár aftur í tímann, varðandi brottfall drengja á framhaldsskólastiginu, þá virðist það vera svipað vandamál og svipaður munur milli kynja þá og nú. Við eigum hins vegar að einblína á hvað við getum gert til þess að bæta líðan barna í skóla. Hvað getum við gert til þess að grípa fyrr til ráðstafana gagnvart vanlíðan og hættumerkjum sem við sjáum? Það er ekkert nýtt að drengir sýni miklu meiri áhættuhegðun en stúlkur. Það hefur alla tíð verið þannig. Það eykur auðvitað líkur á sjálfsvígum, afbrotum og öðrum slíkum þáttum og við þurfum að horfa til þess hvað við getum gert til þess að grípa fyrr inn í.

Við þurfum líka að velta því fyrir okkur, af því að mér finnst undirliggjandi tónn í þessu vera sá að karlmenn sitji einhvern veginn eftir í umræðunni þegar kemur að jafnréttismálum, að við ættum kannski frekar að horfast í augu við það í jafnréttisumræðunni hver hin breytta ímynd karlmennskunnar er. Hvernig eigum við að takast á við hina breyttu ímynd karlmennskunnar? Karlmenn eru ekki lengur þessi staðaltýpa sterka mannsins, fyrirvinnunnar á heimilinu, stóri strákurinn sem tekur svolítið duglega til í handalögmálum á böllum um helgar o.s.frv., þetta er gerbreyttur heimur. Við ættum kannski að leggja miklu meira upp úr því að fræða unga menn um breytta ímynd karlmennskunnar og hverjar breyttar kröfur og skyldur til okkar séu í jafnréttisumræðu nútímans.