149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:25]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Svo að ég komi að því sem hv. þingmaður lauk máli sínu á þá er ég sammála því að það mætti merkja svona inn á áætlun þó að það væri ekki fjármagnað, bara til að vekja á því athygli hvert verkefnið er. Hann talaði um veg meðfram brautinni á Akureyri. Það er nú þannig í mínum huga, þegar maður er að fjalla um samgöngur og önnur stór innviðamál, að þá set ég mig ekki í þær stellingar að ég vilji fá þennan veg á undan þessum eða eitthvað slíkt heldur bara hver þörfin sé almennt.

Það er þess vegna sem ég flyt þetta mál um Alexandersflugvöll. Ég horfi á þetta almennt, að þörf sé fyrir aukið öryggi í varaflugvallamálum almennt séð yfir landið. Mér finnst þessi staður henta mjög vel til þess verkefnis. Talandi um tímaramma þá er sá rammi ekki alveg staðsettur í tíma. Ég get alla vega sagt að þetta er ekki að fara að gerast á morgun, það veit ég. Þetta er komið fram, staðsetningin er góð landfræðilega og í sögulegu samhengi, eins og rakið var í greinargerðinni er hann vel staðsettur. Líka í ljósi þess ef gos verður eða annað slíkt eða aðrar hamfarir sem gætu hamlað öðrum stöðum á landinu. Í því liggur hugmyndin.

Kjördæmapot veit ég ekki um en ég er vissulega þingmaður þess kjördæmis þar sem þessi flugvöllur er. Það er kannski bara tilviljun, ég veit það ekki.