149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf gott að geta vísað í orð sérfræðinga, eins og t.d. lækna. Ég leyfi mér að vísa í bréf landlæknis um akkúrat þetta efni, um akkúrat þessi tengsl, þar sem hann telur að um mjög veik tengsl sé að ræða og að ekki sé hægt að sýna fram á beint orsakasamhengi.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ég held að það sé rétt þýðing á European Comission, er að gera tilbúna þingsályktun sem kallar á að aðildarríki auki þekkingu og kunnáttu meðal lækna samfélagsins eða meðal heilbrigðisstarfsmanna — ég er að þýða beint úr ensku — hvað varðar notkun kannabislyfja og íhugar að leyfa læknum að nota fagþekkingu sína frjálslega til þess að skrifa upp á kannabis og lyf sem eru byggð á kannabis til sjúklinga sem eru með sjúkdóma eða í ástandi þar sem það gæti átt við. Einnig er verið að leyfa þetta í Bretlandi og víðar um heiminn. Ég veit að hv. þingmanni finnst það ekki skipta neinu máli í því samhengi en ég leyfi mér samt að taka það til að landlæknar og ríkisstjórnir víða um heim sjá ekki þá gríðarlegu grýlu sem læknar hér hafa talað um og ekki heldur fyrrverandi landlæknir, árið 2009. Svo hafa bæst við rannsóknir sem draga úr endalausum staðhæfingum um geðhvarfasýki.