149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

fasteignalán til neytenda.

135. mál
[19:19]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, kærlega fyrir þetta frumvarp. Eins og kom fram í máli hans hafa svipuð frumvörp verið lögð fram áður. Það sem mér finnst hvað merkilegast við frumvarpið er markmið þess, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna.“

Það kom mjög vel fram í máli flutningsmanns áðan og ég þakka honum kærlega fyrir það. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er lagt fram í takt við þær breytingar sem orðið hafa í samfélaginu. Styrkja þarf stöðu skuldara og er þessu frumvarpi ætlað að gera það. Sjá þarf til þess að skuldarar hafi þetta úrræði til að mæta hinu ófyrirséða. Það þýðir einnig að lánastofnunum verður gert að vanda sig í lánastarfseminni.

Mig langaði að koma hér upp og benda á það og þakka kærlega fyrir að þetta frumvarp sé komið fram.