149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:30]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta var áhugavert. Kannski ég byrji aðeins á að fabúlera í kringum þetta. Það er alveg ljóst að það er mjög ólík afstaða sem vinstri flokkar og hægri flokkar hafa til samneyslunnar og skatta. Á meðan hægri flokkar líta fyrst og fremst á skatta sem tekjuöflunartæki lítum við sem aðhyllumst félagshyggju á þá sem bæði tekju- og jöfnunartæki. Hér birtist svo hv. þm. Haraldur Benediktsson og fer að tala um veiðigjöldin sem eitthvert sérstakt jöfnunartæki.

Það er alveg ljóst að það er gríðarlega mikill munur á stórútgerðum sem mala gull og útgerðarformi sem getur varla lifað við þessi skilyrði. Þá er ekki svarið við því að stilla af gjöldin miðað við lægsta samnefnara og leyfa öllum sem eru þar fyrir ofan að raka til sín aurunum. Þá hljóta menn frekar að fara í aðgerðir sem beinast að því að auðvelda þeim lífið sem eru í smábátaútgerð, jafnvel í dreifðum byggðum, útgerðum sem eru mikilvægar bæði fyrir byggðirnar og í menningarlegu tilliti, og koma með einhverjar ívilnandi aðgerðir fyrir þær í staðinn fyrir að stilla veiðigjöldin of lágt og miða við lélegasta útgerðarformið.

Í hvaða atvinnugrein er það, svo maður tali nú dálítið gáleysislega, þar sem menn reyna að stilla umhverfið af þannig að aldrei geti nokkurt fyrirtæki farið á hausinn? Þannig er það bara ekki og á ekki að vera. En ég kaupi það alveg og skil að það getur verið mikilvægt fyrir einstakar byggðir að hafa útgerðir sem fóta sig illa í núverandi kerfi. Þá bregðast menn við því. En veiðigjöldin eiga auðvitað að miðast við að þjóðin fái eðlileg afgjöld af auðlind sinni. Samfylkingin telur að misbrestur sé á því og gerðist þess vegna svo djörf að leggja það til að þau hækkuðu um litla 3 milljarða.

Reyndar erum við ekki að leggja til hækkun. Við erum að leggja til að þau verði það sama og þau voru á síðasta ári.

En ég vil segja það fyrst að gagnrýni Samfylkingarinnar er ekkert svartsýnisraus út í bláinn sem sett er fram af geðvondum stjórnarandstöðuflokki sem hefur allt á hornum sér og getur ekki séð ljósið, getur ekki séð þá stórkostlegu blessun sem felst í þessum fjárlögum, að sögn stjórnarliða, heldur byggir málflutningur okkar ekki síst á umsögnum frá fjölmörgum umsagnaraðilum sem sent hafa inn athugasemdir. Þar erum við ekkert að pikka út sérvalinn, einsleitan hóp. Við erum að tala um fólk og aðila sem koma úr mjög ólíkum áttum. Ég get nefnt verkalýðshreyfinguna. Ég get nefnt Viðskiptaráð. Ég get nefnt helstu hagsmunasamtök öryrkja, aldraðra, forsvarsmenn hjúkrunarheimila og opinberra stofnana, heilbrigðisstofnanir úti um allt land.

En fyrst og fremst byggir gagnrýni okkar og breytingartillögur á því að okkur er fullkomlega misboðið fyrir hönd þeirra hópa sem hafa það bara býsna skítt í samfélaginu, sem varla ná endum saman og hafa ekki notið góðæris síðustu ára í sama mæli og við sem höfum feikilega háar tekjur. Ég man þegar við ræddum fjárlög síðustu ríkisstjórnar þegar enn var uppgangur. Þá töldum við að ríkisstjórnin hefði vanrækt tekjuöflun. Í stað þess hefðu menn étið afganga og borðað úr ísskápnum. Ríkisstjórnin nýtti ekki tækifæri á toppi hagsveiflu til að afla tekna til að hægt væri að jafna lífskjörin nægilega. Nú þegar hallar undan fæti í efnahagsmálum verður enn þá erfiðara að gera það.

Nú virðist sem bökin sem ríkisstjórnin hefur fundið til að bera þessar byrðar séu einmitt sá hópur sem bar því miður ekki nægilega mikið úr býtum í uppsveiflunni og þarf að þreyja þorrann í gegnum enn eina efnahagslægðina og bíða eftir réttlæti. Ég óttast, frú forseti, að það geti orðið mörgum þessara einstaklinga býsna dýrt og erfitt.

Við erum ríkt land, 11. ríkasta land í heimi, hefur verið sagt. Við ættum að geta hagað málum þannig að allir gætu lifað hér nokkuð góðu lífi, a.m.k. lifað með reisn. Það er hlutverk ríkisins að skapa þau skilyrði. Undanfarin ár hafa verið einstaklega gjöful og þess vegna hefði verið alveg einstakt tækifæri til að auka jöfnuð og félagslegt réttlæti.

En um það deilum við vegna þess að við erum í mörgum flokkum. Við höllum okkur til hægri og við höllum okkur til vinstri og höfum ólíka sýn á þessi mál. Í þessari ríkisstjórn er a.m.k. einn flokkur sem hefur deilt þessari sýn með okkur. Og fyrst og fremst gagnvart honum eru vonbrigði mín og undrun. Við verðum einfaldlega að snúa af þeirri braut sem við höfum verið á, eins og sýnt hefur verið fram á, en frá 1998 hafa skattar á lægstu tekjurnar hækkað á meðan skattar á hæstu tekjurnar hafa lækkað hlutfallslega.

Það voru líka höfð uppi stór orð fyrir síðustu kosningar um nauðsyn þess að ráðast í stórkostlega innviðauppbyggingu í samgöngum, heilbrigðis-, menntamálum og fleiri hlutum. Það var reyndar erindi flestra flokka í kosningabaráttunni. Auðvitað er það viðbúið að fólk standi ekki við allt og að einhverjir flokkar standi kannski við minna en aðrir, sérstaklega þeir sem lofuðu mestu en ætluðu á sama tíma líka að veikja tekjugrunninn með því að lækka skatta. En hér hefur svokallaður efnahagslegur stöðugleiki verið á kostnað félagslegs jöfnuðar. Það finnst mér óréttlátt.

Fáir hafa kannski orðað óréttlæti þess betur en einmitt hæstv. forsætisráðherra sem sagði við stefnuræðu forsætisráðherra 13. september 2017, með leyfi forseta:

„Kæru landsmenn. Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið — eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.

Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.

Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“

Ég ætla, frú forseti, að leyfa mér að gera þessi orð að mínum í dag, þau eiga enn við. Jafnvel þótt aðeins sé bætt í víða, sem er þakkarvert, er því miður of lítið gert. Og nú biður ríkisstjórn þessa sama þingmanns sem sagði þessi orð og flutti þessa fallegu ræðu fyrir rúmu ári, sem hún var virkilega, fátæka fólkið að bíða.

Fyrstu drög fjárlaga heilt yfir eru ekkert sérstaklega góð en þó eru viðbætur sem auðvitað er full ástæða til að fagna. En forsendur þeirra voru frá upphafi byggðar á sandi. Það kom í rauninni strax á daginn á nokkrum vikum þegar gengið byrjaði að falla. Þá þýðir auðvitað ekki fyrir hæstv. fjármálaráðherra að tala um að Samfylkingin eða einstakir þingmenn í Samfylkingunni hafi talað gengið niður þannig að verðbólgan hækkaði. Gengið var farið að falla áður en Samfylkingin fór að hafa orð á því aftur nú síðla hausts. Ég ætla þá að biðja hæstv. fjármálaráðherra, fyrst hann trúir svona á mátt orðanna, að fara heim til sín í kvöld eftir þessa umræðu og tala krónuna aftur upp. Hann hlýtur að geta gert það. Hann er reyndari í þessum málum en við óbreyttir sem höfum talað krónuna niður hér.

Þegar forsendurnar fóru að bresta var auðvitað viðbúið að bregðast þyrfti við því. Þess vegna birtist nokkuð merkileg mynd milli 1. og 2. umr., þá komu breytingartillögur sem eru til lækkunar. Yfirleitt eru breytingartillögurnar til hækkunar. Þegar hópar koma á fund fjárlaganefndar og ræða þörfina sem þingmönnum hefur einhvern veginn yfirsést, hækkar framlagið kannski milli umræðna. En þarna tók ríkisstjórnin sig til og lækkaði, steig kannski tvö, þrjú skref afturábak. Það hlýtur að vera nánast einsdæmi í lýðveldissögunni.

Og talandi um forsendur. Forsendurnar sem nú eru fyrir 3. umr. eru um það bil að bresta líka, er það ekki? Mér sýndist það a.m.k. á heimabankanum mínum þegar ég skoðaði gengið, þegar ég skoðaði ummæli ýmissa sem hafa vit á fjármálum og tjá sig um fjármál, greiningardeildir og aðilar sem til þekkja.

Þess vegna eru það mjög mikil vonbrigði að í staðinn fyrir að mæta þeim 2 milljörðum, sem greinilega vantaði upp á til að loka þessu gati, hafi ríkisstjórnin ekki ráðist í tekjuöflun hjá þeim sem eru algerlega aflögufærir og stoppað upp í gatið eða þá a.m.k. varið okkar veikustu systur og bræður. Að velta byrðum kólnandi efnahagslífs yfir á fólk sem getur varla borið hönd fyrir höfuð sér finnst mér ósanngjarnt. Mér finnst það skammarlegt og ég trúi ekki að pólitískir nágrannar mínir í Vinstri grænum, sem hafa talað með nákvæmlega sama hætti um skattamál og velferðarmál og Samfylkingin, rísi ekki upp í atkvæðagreiðslu og greiði einhverjum af þessum tillögum okkar atkvæði sitt.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson rakti í mjög ítarlegu máli sjónarmið Samfylkingarinnar varðandi þetta frumvarp. Ég ætla í sjálfu sér ekki að endurtaka þau í löngu máli. Þó vil ég ítreka að fjárlagafrumvarpið tryggir hvorki félagslegt réttlæti né efnahagslegan stöðugleika, sýnist mér. Það vanrækir þá innviði sem við trúðum öll, sem buðum okkur fram síðast, að hægt væri að ráðast í.

Í sjálfu sér gæti ég talað hér í allan dag um alla þá hópa sem þyrftu að fá einhverja bót sinna mála, sem eru að bíða eftir réttlætinu, sem geta ekki enn lifað mannsæmandi lífi. Ég ætla hins vegar að einbeita mér hér að einum hópi. Mig langar sérstaklega að ræða unga fólkið okkar. Það er kannski fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Annars vegar er þetta sá hópur sem hefur eftir hrunið algjörlega orðið eftir. Eignamyndun hans er lítil og skuldasöfnun er meiri en annarra. Unga fólkið er með öðrum orðum í verri stöðu en aðrir hópar, eins og hæstv. fjármálaráðherra vék reyndar að í gær.

Þetta er sá hópur sem við þurfum að treysta á að muni draga vagninn hérna næstu áratugi, bera uppi lífskjörin í landinu, standa fyrir mikið meiri verðmætasköpun vegna breytinga á lýðfræðilegum þáttum samfélagsins. Það verða með öðrum orðum fleiri gamlir en ungir og þetta fólk þarf að stíga hjólin sérstaklega hart. Ætlum við að nesta það með þessum hætti? Senda það út í lífið án þess að geta t.d. boðið því upp á örugga leið til að eignast húsnæði? Þetta fólk er hins vegar, ólíkt okkur, í kjörstöðu til að flytjast og búa og vinna hvar sem er í heiminum.

Við skulum ekki vera viss um að það sé sjálfgefið að unga fólkið veðji á Ísland og komi til baka ef það fer út og menntar sig, ef við getum ekki í sameiningu tekist á við þá þætti sem lúta að því að skapa því betri skilyrði. Þar get ég tekið undir með hæstv. forsætisráðherra, þar getum við virkilega náð breiðri sátt frá hægri til vinstri, vegna þess að margar af þeim leiðum sem hægt væri að fara þurfa ekki að vera flokkspólitískt þrætuepli. Í rauninni á húsnæði að vera alveg eins og heilbrigðiskerfi og menntakerfi, eitthvað sem er alveg sjálfsagt í nútímasamfélagi að það ætti í rauninni að búa til langtímastefnu utan um þau mál.

Kaupmáttaraukningin sem orðið hefur hjá mörgum hópum, m.a. mér, meira en flestum öðrum í landinu, hefur ekki skilað sér til ungs fólks. Það er staðreynd að fólk undir þrítugu hefur setið nokkuð eftir. Það er m.a. vegna mikillar hækkunar á fasteignaverði og leiguverði sem fylgir því. Hún hefur gert það að verkum að ungt fólk hefur haft miklu minni og verri möguleika á að eignast sitt eigið heimili og líka átt gríðarlega erfitt með að kljúfa síhækkandi leigu, sem er orðið stórt hlutfall af þeim launum sem það þarf að lifa á, hvort sem það eru námslán eða laun sem ungt fólk fær sem fetar fyrstu skrefin úti á vinnumarkaðnum.

Meginþorri allrar þeirrar eignamyndunar sem stærsti hlutinn í samfélaginu hefur upplifað er fyrst og fremst vegna hækkunar á fasteignaverði. Það er vegna þess að við eigum steinsteypt hús eða timburhús sem við skuldum töluvert í en hafa hækkað gríðarlega í verði og til verður einhver eign. En þetta unga fólk sem kemst ekki áfram og getur ekki eignast íbúð, mun dragast aftur úr. Það verður gjá á milli okkar sem eigum eignir, a.m.k. að nafninu til, og þeirra sem eiga þær ekki.

Þess vegna er ég svo hissa, frú forseti, á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Þeir nokkur hundruð milljarðar sem ráðgerðir voru í þau mál voru að mestu leyti til að uppfylla skuldbindingar sem m.a. voru gerðar í samningum 2015 eða 2016 við verkalýðshreyfinguna, m.a. um stofnframlög. Nú við 2. umr. eru lagðar til breytingartillögur þar sem þessir hlutir eru meira að segja skornir niður um 80 millj. kr.

Þetta er gert þrátt fyrir að áherslur verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins á húsnæðismál séu að þeirra sögn lykillinn að mögulega farsælli lendingu og niðurstöðu kjarasamninga.

Þess vegna er metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar algjört, bæði í fjárlögum og fjármálaáætlun.

Ég held að þetta sé einfaldlega stóra málið, og samkvæmt verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnulífsins, sem getur komið okkur í gegnum veturinn með þolanlega góðum hætti og leyst málin þar er þetta stærsta hagsmunamál og stærsta velferðarmál ungs fólks í dag. Húsnæðismál eru risastór partur af félagslegum stöðugleika. Húsnæði snýst nefnilega ekki bara um að hafa þak yfir höfuðið og vera varinn fyrir veðri og vindum. Húsnæði er fyrst og fremst spurning um heimili, að geta búið börnunum sínum öryggi og leyft þeim að alast upp við skilyrði þar sem þau eru ekki á sífelldum flótta á leigumarkaði, milli hverfa, milli íbúða, frá íþróttafélögunum sem þau stunda íþróttir í, frá vinum og sífellt verið að rífa þau upp með rótum og ferðast á milli. Við verðum einfaldlega að gera betur. Þar held ég, hæstv. fjármálaráðherra og frú forseti, að við ættum að geta náð sameiginlegri lendingu.

Þess vegna höfum við í Samfylkingunni lagt fram húsnæðistillögu í átta liðum, sem er alls ekki nægjanlegt til að laga þessa hluti og alls ekki að laga þá einn, tveir og þrír, það mun engin tillaga gera. Ég hef fullan skilning á því að það er verkefni sem þarf að vinnast á mörgum árum. En ástæðan fyrir því að við leggjum þetta fram sem þingsályktunartillögu en bútum það ekki niður og gerum með öðrum hætti, er að þetta er okkar innlegg, vegna þess að við trúum að þarna geti stjórn og stjórnarandstaða unnið saman.

En til þess þarf hins vegar að afla tekna, eins og með flesta hluti sem eru góðir og skemmtilegir í lífinu. Á það skortir því miður í þessu frumvarpi.

Við teljum að huga þurfi betur að stofnstyrkjum sem ýta undir óhagnaðardrifinn rekstur þannig að til verði sjálfbær leigumarkaður hér til lengri tíma. Stærstur hluti Íslendinga býr í eigin húsnæði og mun væntanlega velja það. Það er allt í góðu lagi. En vaxandi hlutur hóps vill hafa meiri hreyfanleika og kýs að geta tekið sig upp og flutt til útlanda eða í annan landshluta án þess að þurfa að standa í því að vera að selja íbúðir. Við náum væntanlega ekki hlutfallinu sem er t.d. í Þýskalandi, en við gætum náð norska hlutfallinu, sem ég held að sé 23% eða 24%.

Gjarnan er vitnað í að 95% Íslendinga hafi ekki mikið álit á íslenskum leigumarkaði, en það hefur ekkert með það að gera að leigja. Það hefur með íslenskan leigumarkað að gera. Ef við skoðum sambærilegar kannanir frá Norðurlöndunum eða frá Þýskalandi sjáum við allt annan veruleika. Þar er fólk býsna ánægt með þetta. Þessum tillögum þurfa líka að fylgja aðgerðir sem tryggja leigjendum betri skilyrði. Tryggja þarf að öll sveitarfélög í landinu standi við skuldbindingar sínar og komi með jöfnum hætti að byggingu og rekstri félagslegs húsnæðis. Við þurfum að útfæra lánafyrirkomulag sem tryggir fólki sem ekki á ríka foreldra möguleika á að kaupa sína fyrstu eign. Það er svo margt sem við þurfum að gera.

En fyrst og fremst þurfum við og stjórnvöld að styðja miklu betur við ungt fólk, við barnafólk. Það er unga fólkið sem er ávísun á framtíðarverðmæti okkar. Af því mun ráðast hvort okkur mun vegna illa eða vel. Þess vegna þurfum við að hækka barnabæturnar, sem ekki hafa haldist í hendur við laun og verðlagsþróun. Það þýðir einfaldlega að barnafólkið dregst aftur úr. Það er dýrt að eiga barn. Þess vegna leggur Samfylkingin til 2 milljarða aukningu í barnabætur til að koma til móts við þessar fjölskyldur.

Þar að auki leggjum við reyndar líka til 2 milljarða aukningu á vaxtabótum til að draga úr húsnæðiskostnaði fjölskyldna.

Hér hefur oft verið rætt um það sem gjarnan er nefnt fjórða iðnbyltingin. Hún gengur í rauninni út á brjálæðislegar tækniframfarir, stafræna byltingu, róbótavæðingu þar sem vélarnar taka ekki bara við af vöðvaaflinu eins og þær gerðu við iðnbyltinguna, heldur eru þær líka farnar að leysa hugann af hólmi með einhverjum hætti. Við það verður samfélag okkar allt öðruvísi en það er í dag og tæknin mun gjörbreyta framleiðslu- og lifnaðarháttum.

Til að bregðast við þessu er bara ein leið: Að gera gífurlegt stórátak í menntamálum sem mun gera okkur kleift að fóta okkur í heimi stafrænnar tækni, nýsköpunar og annarra hluta sem við höfum kannski ekki hugmynd um hverjir eru núna. Það er nefnilega mjög líklegt að þessar breytingar hafi í för með sér að vinnumarkaður verður miklu kvikari og fljótari að breytast en áður hefur verið. Þannig er það með allt í heiminum. Allt er að hraðast með veldisaukningu, sem er reyndar óskiljanlegur vöxtur, en við höfum einhverja ímynd af hvernig er. Þessi heimur mun krefjast þess að ungt fólk, allt fólk auðvitað, sem ætlar að vera virkt á vinnumarkaði styrki eiginleika eins og sköpunargleði, tækniþekkingu, áræðni og aðra slíka hluti.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur talað um þetta. Ég held að hún hafi jafnvel áhuga á þessu. Hún ræddi alla vega í upphaf kjörtímabilsins um stórsóknina sem ég nefndi áðan. En með framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga birtast viss vonbrigði. Ekki er verið að setja þann kraft í menntamál sem þyrfti að gera ef við ætlum ekki að dragast aftur úr öðrum þjóðum. Við þurfum ekki annað en að skoða tölur um nýsköpun, tölur um einkaleyfi og patent í hinum mismunandi hlutum heimsins til að sjá að Ísland, og reyndar Evrópa öll, þarf á öllu sínu að halda ef það á ekki að dragast aftur úr hinum vaxandi ríkjum eins og jafnvel sumum stöðum í Afríku, Kína, Indónesíu, Bandaríkjunum.

Það getur orðið okkur býsna dýrkeyptur sparnaður ef við drögumst aftur úr. Það er í rauninni ótrúlegt hvað framhaldsskólarnir þurfa að þola. Þeir fá lækkun milli umræðna, reyndar nokkra milljónkalla en lækkun engu að síður. Háskólarnir fá bara brot af því sem háskólar OECD-landanna og Norðurlandanna fá, þrátt fyrir að það standi í stjórnarsáttmálanum að það séu tímasett markmið um þetta. Hæstv. menntamálaráðherra hefur reyndar sagt að við myndum ná OECD-markmiðinu árið 2020. Það er hins vegar rangt. Þar miðar hún við tölurnar eins og þær voru 2014. Síðan eru liðin fjögur ár og ekkert reiknaðar inn í verðbætur, ekkert reiknaður inn í hagvöxtur og ekkert reiknuð inn í fjölgun nemenda. Við munum ekki ná þessu. Það vantar líklega 2–3 milljarða upp á að þessum boðuðu markmiðum verði náð.

En við ættum auðvitað að setja okkur háleitari markmið. Við ættum að setja okkur það að standa jafnfætis Norðurlöndunum. En það mun taka tíma, ég skal sýna því skilning vegna þess að ég held að það þurfi bara 11 milljarða strax í það. En við getum alla vega sameinast um þetta vegna þess að það er ekki valkostur að bíða.

Ákvarðanir sem við tökum núna í dag eru þær ákvarðanir sem skipta sköpum fyrir næstu kynslóðir. Það veit ungt fólk. Ungt fólk er auðvitað miklu klárara, ábyrgara, afdráttarlausara í mörgum málum en við hér inni, m.a. í umhverfis- og loftslagsmálum. Þetta fólk lýsir því yfir að það sé tilbúið að fórna einhverju af lífskjörum, tilbúið að breyta hegðun sinni til að vernda plánetuna. Það verðum við líka að gera. En það erum við sem erum sandurinn í tannhjólunum.

Ég get í rauninni hrósað ríkisstjórninni, svo það sé gert einhvers staðar í ræðunni, fyrir ákveðinn vilja og metnað í loftslagsmálum, alla vega í samanburði við það sem áður hefur gerst. En um það er bara að segja að við höfum einfaldlega ekkert val. Baráttan gegn loftslagsvánni er stærsta áskorun sem mannskepnan stendur frammi fyrir og líklega sem hún hefur staðið frammi fyrir. Þannig að við hvetjum ríkisstjórnina áfram á þeirri braut.

En við þurfum samt að gera betur. Við innheimtum t.d. bara helminginn af fyrirhuguðum hækkunum á kolefnisgjaldi sem hæstv. ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar lagði til fyrir rúmu ári síðan — sem var kannski grænasta stjórn lýðveldissögunnar.

Við höfum hins vegar vissulega lagt fyrir tillögur um orkuskipti. Það eru auðvitað ágætisskref til að slá á sjúkdómseinkenni en við þurfum að koma í veg fyrir sjúkdóminn. Það er nefnilega ekki nóg að drífa einkabílinn áfram á vistvænum orkugjöfum. Við þurfum einfaldlega að minnka notkun hans líka. Það er mjög mikilvægt að þróa metnaðarfullar tillögur um sjálfbært þéttbýli. Hið byggða umhverfi er stærsti áhrifaþátturinn í kolefnislosun í heiminum. Þar eigum við færi á að minnka kolefnisútblástur mest og heyja árangursríka baráttu, ekki síst í landi sem er svo einstakt í hnattrænu samhengi að þar búa 70.000 manns á einum bletti sem heitir höfuðborgarsvæðið. Það eru bara Mongólía, Panama, Kúveit og Djíbútí sem geta státað af því að vera jafn mikil borgríki og Ísland í rauninni er. Það á ekki að vera nein spurning um smekk eða frelsi hvernig á að byggja og skipuleggja. Gisin byggð krefst einfaldlega miklu meiri innviða, miklu dýrari uppbyggingar, og hún hindrar almenningssamgöngur.

Því nefni ég þetta, svo maður komi inn á málaflokka bæði hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. samgönguráðherra, að það stappar nálægt fullkominni einfeldni, a.m.k. skammsýni, að ekki skuli vera gert ráð fyrir stórfelldum framlögum til almenningssamgangna, og þá sérstaklega borgarlínu hér á höfuðborgarsvæðinu. Hún er forsenda sjálfbærrar byggðar hér og lykillinn að því að okkur takist að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum, sem okkur virðist ekki vera að takast samkvæmt nýjustu könnunum. Mér finnast það vera ljót skilaboð m.a. til ungs fólks og lágtekjufólks sem hefur ekki efni á því að reka einkabíl.

Almenningssamgöngur og borgarlína eru nefnilega ekki bara spurning um loftslagsmál heldur eru þær öflug og dýrmæt jöfnunartæki og félagslegur stuðningur. Þetta ætti a.m.k. þingflokkur Vinstri grænna að skilja. Auðvitað hafa samgöngur um allt land verið vanræktar og ekkert okkar hefur staðið við þau fyrirheit sem gefin hafa verið í samgöngumálum, þótt þessi málaflokkur snúist bæði um öryggi íbúa og möguleika hinna dreifðu byggða til að dafna og þrífast. En það er hins vegar mjög merkilegt að skoða, af þeim takmörkuðu fjármunum sem eru í þessum fjárlögum, sem veittir voru til samgöngumála, og á að skera niður um 550 millj. kr. frá síðustu umferð, hversu mismiklu er varið til einstakra landshluta. Þannig fara 19,6 milljarðar á næstu fimm árum í kjördæmi ráðherra á meðan 1,3 milljarðar fara á Austurland, sýnist mér. Það ætla ég frekar að spyrja ráðherra út í í óundirbúnum fyrirspurnum.

En varðandi landsbyggðina. Sex heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni telja sig þurfa 800 milljónir. Það er ekki mikill peningur. En fjárlaganefnd og ríkisstjórnin telja sig ekki hafa möguleika á að verða við þeirri ósk, sem er í raun ein grunnforsendan fyrir því að það sé byggilegt á þessum stöðum. Jú, það má svo sem benda á að hægt sé að koma sér hingað til Reykjavíkur. Það er eðlilegt í landi þar sem svo stór hluti býr á sama stað að meginhluti stofnana og stóra sjúkrahúsið sé hér. En það þarf þá að gera fólki kleift að koma sér á milli staða. Það væri þá óskandi fyrst ríkisstjórnin getur ekki látið þessar 800 millj. kr. í heilbrigðisstofnanir úti á landi, að hún geti þá gert það ódýrara fyrir fólk að koma fljúgandi til höfuðstaðarins.

Ríkisstjórnin tryggir líka einungis einn fimmta hluta af því sem hjúkrunarheimilin í landinu biðja um til þess að þar sé sjálfbær rekstur. Og það er ekkert gamanmál. Hjúkrunarheimilin í landinu hýsa okkar elstu kynslóð, kynslóðina sem kom okkur á þann stað sem við erum á. Það sem er óþægilegt við þetta mál er að hjúkrunarheimilin eru nefnilega í höndum mismunandi rekstraraðila. Ríkið rekur sum hjúkrunarheimilin, einkafyrirtæki eru með sum og svo eru sveitarfélög með önnur. Með því að ríkið tryggi ekki hjúkrunarheimilunum nægilegt fé til reksturs er ekki verið að gera neitt annað en að mismuna sveitarfélagi. Sveitarfélag sem er með þetta í fanginu og þarf að borga tugi eða hundruð milljóna úr rekstri sínum í heimilin þarf að taka það af öðrum hlutum; af íþróttum, af tómstundum aldraðra, af menningu og listum. Þessi sveitarfélög verða einfaldlega í verri samkeppnisstöðu en þau sem ekki eru með þetta í höndunum. Þannig að það er ekki gamanmál. Ég ætlast eiginlega til þess að hv. þingmenn styðji breytingartillögur Samfylkingarinnar þessa efnis.

Eins og ég sagði áðan er auðvitað hægt að fara út um víðan völl. Ég kaus að afmarka mál mitt vegna þess að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið vel yfir sviðið. En ég get þó ekki sleppt því að nefna í lokin þau skammarlega metnaðarlausu framlög sem þessi 11. ríkasta þjóð í heimi er tilbúin að láta í þróunarsamvinnu. Mannkynið stendur frammi fyrir risastórum, sameiginlegum áskorunum og við verðum einfaldlega að takast á við þær saman. Einn hópur sem þarf á hjálp að halda er fólk á flótta. Það er fólk sem flýr undan stríði, fátækt og loftslagsbreytingum og fólk sem býr við slík skilyrði. Við stefnum einungis á að vera hálfdrættingur á við þær þjóðir sem gera best.

Ég tek eftir að milli umræðna lækkar meira að segja það litla framlag sem við látum í þróunarsamvinnu um 80 millj. kr. Mér finnst það sýna lítinn skilning á vandamálinu og lítinn rausnarskap hjá þjóð sem þáði sjálf þróunaraðstoð fram til 1976. Það er ekki lengra síðan að Íslendingar fengu úr sameiginlegum þróunarsjóðum til sín. En 11. ríkasta þjóð í heimi ætlar að skera niður á milli umræðna því að hún telur sig ekki hafa efni á því að hjálpa öðrum.

Frú forseti. Að lokum: Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að stjórnarþingmenn, a.m.k. Vinstri grænna, muni ekki styðja einhverjar af þeim tillögum sem við leggjum hér fyrir í dag. Í sögulegu samhengi er það kannski ekki líklegt. En ef horft er til stefnu, málflutnings, orða og skrifa þeirra sömu þingmanna og hér sitja hlýtur það að gerast.