149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það var nú engin spurning þarna. En þetta er umræða. Jú, jú, það er margt til bóta í þessu frumvarpi til fjárlaga og gott að verið er að auka fjármagn í málaflokka. En eins og ég talaði um í ræðu minni er erfitt að átta sig á því hvernig víxlverkunin er á milli kerfa, hvað það þýðir þegar við drögum fjármagn úr einum stað, hvernig það mun auka kostnað á öðrum stað.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr nefndaráliti frá 2. minni hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga er alvarlegur skortur á gagnsæi fjárheimilda. Það er svo til ómögulegt að komast að því af hverju bundin útgjöld eða útgjaldasvigrúm aukast um þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í hverju málefnasviði. Einhverjar undantekningar má finna en það er þá aðallega af því að það er ekkert útgjaldasvigrúm í málefnasviðinu. Það þarf ekki að útskýra mikið ef ekkert breytist.“

Þetta er dálítið vandamálið þegar kemur að þessu fjárlagafrumvarpi og síðasta fjárlagafrumvarpi líka. Við kölluðum í velferðarnefnd, man ég á þeim tíma, eftir gögnum til að fá útskýringu á hvernig reikningsdæmið liti út. Hvernig eru þessar upphæðir á málefnasviði áætlaðar? Á hvaða forsendum er ákveðið að þetta málefnasvið fái þessa upphæð og annað svið aðra upphæð? Við kölluðum eftir þessum gögnum og höfum bara aldrei fengið þau. Það er ógagnsæi í þessu sem gerir manni erfitt að meta hversu gott þetta sé í raun og veru og hvaða áhrif þetta muni hafa til langs tíma.