149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Fjárhæðin til þessa hóps stendur. Hún verður ekki tekin af hópnum og ekki lækkuð eitt né neitt. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður kom inn á, og mikilvægt að halda því til haga í umræðunni, varðandi tillögur frá þverpólitískum samráðshópi, sem Samfylkingin á fulltrúa í, að það hefur verið uppi ágreiningur um starfsgetumat þannig að menn hafa beðið um að gefa því aðeins meiri tíma. Það gerir það að verkum þegar við erum að fást við fjárlög á einu ári, fjárheimildir, að sú vinna tefst. Ég hefði fagnað því, eins og hv. þingmaður, að geta greitt þetta allt út og helst viljað það. En mikilvægast er að þetta verði kerfisumbætur sem nýtist inn í framtíðina. Þess vegna er mikilvægt að vanda sig, hvort það tefst um einn mánuð eða tvo og verði eftir áramót eða hvað er ekki lykilatriði. Það er mjög mikilvægt að þessi hópur fái að vita að við ætlum að breyta kerfinu.