149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[23:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að vanda mig í að reyna að setja málið ekki þannig fram að hv. þingmaður þurfi að koma aftur upp og svara, hann getur það að sjálfsögðu ekki, þannig virka þessi andsvör.

Ég held hins vegar að það sé merkilegt að hafa í huga að á sínum tíma, þegar þetta kerfi var innleitt, og man ég þá snögglega eftir mjög ákveðnum ræðum fyrrverandi hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem varaði mjög við þessu kerfi, þá var sótt mjög fast af atvinnulífinu, ef ég man rétt, að þetta yrði innleitt, þ.e. að Íslendingar tækju þátt í þessu.

Það er hins vegar spurning, og ég leyfi mér að velta henni fyrir mér, hvort ríkið eigi að taka þátt í því með þeim hætti sem þarna er lagt upp með. Hugsanlega kallar það á meiri umræðu og mögulega stefnumörkun eða eitthvað slíkt. Við þurfum vitanlega að geta svarað því hver verði þörf okkar í framtíðinni, annars vegar nánustu framtíð og hins vegar lengri framtíð. Það verður svolítið undarlegt ef við — og nú segi ég „ef“ og nota gæsalappir — lendum í því, og ég held að það sé það sem hv. þm. Birgir Þórarinsson bendir á, ef við lendum í því að þurfa svo að fara að kaupa losunarheimildir á þessum uppboðsmarkaði, íslenska ríkið, þá erum við kannski í svolítið skrýtinni stöðu. Að vera að fjármagna einhverja hluti með þessu hjá okkur til að kaupa svo til baka. Þannig skil ég þetta.