149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar kærlega fyrir, kannski ekki spurningu en seinna andsvar. Fyrst varðandi hlutföll af nettólandsframleiðslu. Ég held að við getum alveg verið sammála um að þótt þetta sé hlutfallslega mögulega sama tala og er af nettólandsframleiðslu eru það krónurnar sem skipta máli þegar farið er í framkvæmdir. Þar er ekki neitt hlutfall. Við þurfum að borga fyrir vegagerð, vinnu, viðhald og nýframkvæmdir og það eru krónur þar. Það er ekki hlutfall af einhverju öðru, svo að því sé haldið til haga.

Þetta eru verulegir fjármunir, ég tek alveg undir það, en þörfin er mjög brýn. Við stöndum okkur mjög illa þegar kemur að samgöngumálum og höfum gert lengi og vegna þessa ástands er einn stjórnarflokkanna að keyra núna um landið og kynna eigin samgönguáætlun, sem er ekki samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra og formanns Framsóknarflokksins heldur einhver önnur samgönguáætlun. Á sama tíma á umhverfis- og samgöngunefnd að vera að afgreiða þá samgönguáætlun sem við erum að vinna og á sama tíma er að koma eitthvað nýtt frá fjárlaganefnd. En þetta eru þingmannsraunir sem ég rausa um.

Mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom inn á 4 milljarðar færu í krónu á móti krónu leiðréttinguna. Þá veltir maður aðeins fyrir sér lækkuninni um 1,1 milljarð. Má skilja það þannig að sú lækkun verður þá tekin af einhverju öðru en þessari kerfisbreytingu og hverju þá?