149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson fullyrti í ræðu sinni áðan að framlög til nánast allra hjúkrunarheimila — ef við getum orðað það þannig, hann átti þá væntanlega við daggjöld og annað — lækkuðu á milli ára. Ég er dálítið hissa á þeirri fullyrðingu, ég verð að segja það, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að ein af meginbreytingartillögum hv. fjárlaganefndar gengur út á að hækka framlög til daggjaldastofnana eða hjúkrunarheimila um 276 milljónir, ég held að ég muni töluna nokkuð rétt, og þá hækka framlög í heildina á árinu til þessa liðar um rétt ríflega 4,5% á milli ára. Ég á voðalega erfitt með að sjá, jafnvel þótt við verðlagsleiðréttum og annað, að þetta sé rétt og mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvernig í ósköpunum honum tekst að fá út þá niðurstöðu.