149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að koma aftur upp. Það var í maí, minnir mig frekar en í apríl, að það kom út skýrsla frá norrænu ráðherranefndinni sem fjallaði um að ójöfnuður væri að aukast á Norðurlöndum. Norðurlöndin tróna hæst á öllum listum yfir hvar er best að búa, hvar er mestur jöfnuður og jöfn tækifæri og jafnrétti og allt það og við viljum ekki fara niður á þeim lista. Þess vegna voru fengnir sérfræðingar til að skoða þetta og þeir komust að því að ríkir væru að verða ríkari og fátækir fátækari á Norðurlöndum. Þau skilaboð voru send til stjórnvalda að ef þau vildu snúa þeirri þróun við þyrftu þau að auka við barnabætur og húsnæðisbætur og hafa velferðarþjónustu eins ódýra og mögulegt væri, helst ókeypis. Einnig að þróunin í bótakerfunum og millifærslukerfunum ætti að vera bundin við tekjuþróun, vegna þess að ef það er ekki gert og við höfum séð það gerast hér, þá skiptir þessi bót alltaf minna og minna máli við framfærsluna.

Þannig að norrænu sérfræðingarnir, sem tóku þetta saman, sögðu að ástæðan fyrir því að bilið væri að breikka væri að finna m.a. þarna og stærsta ástæðan væri að bæturnar í tilfærslukerfunum fylgdu ekki launaþróun. Ég held að við ættum að skoða þetta. Við erum alltaf aðeins að bæta í hér og aðeins að bæta í þar, en við (Forseti hringir.) þurfum að hafa eitthvert kerfi þannig að það skipti máli fyrir framfærslu fjölskyldunnar.