149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held aðeins áfram með svarið frá því áðan. Já, við fengum hugmynd um PPP, eða Public Private Partnership, sem var þýtt sem samvinnuleið. Ég held að það sé röng þýðing á hugtakinu og sérstaklega hönnuð til að Framsókn líði vel. Tæknilega séð er þetta ekki sami hluturinn.

En óháð því hafa ekki komið neinar aðrar tillögur sem ná utan um umfang þessa verkefnis. Þegar allt kemur til alls vorum við vissulega eftir efnahagshrunið með ýmsar ríkisskuldir út af yfirtöku viðskiptabanka, það voru gríðarlegar skuldir í samfélaginu, hjá heimilunum, sem hefur unnist vel á. Nokkrir hópar voru skildir eftir, t.d. nemendur og leigjendur, í þeirri vegferð. Við súpum seyðið af því núna í húsnæðiskrísu þar sem vantar tvímælalaust nokkrar tegundir íbúða. Ferðamenn hafa haft áhrif þar á.

En það sem stendur eftir, og ég held að sé stóra skuldin sem við eigum eftir eftir hrunið, eru innviðirnir. Við sjáum einfaldlega að uppbyggingar- og viðhaldsþörfin er gríðarlega stór. Það hefur ekkert verið unnið á henni síðan í efnahagshruninu. Þetta er risavaxna verkefnið sem við sáum fyrir fyrir kosningar. Allir flokkar lofuðu að fara í þá vegferð að byggja upp innviði. Þá er bara spurningin hvernig. Og það hefur engin önnur lausn komið en einhvers konar samvinnuleið sem ég myndi kannski vilja útfæra (Forseti hringir.) meira í samvinnuleiðarátt en Public Private Partnership, eða samvinna ríkis og einkaaðila. Ég myndi frekar vilja útfæra hana nær því sem samvinnuleið þýðir heldur en hitt.