149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég skipti hér út umræðuefni eftir fund sem við áttum, nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis, í hádeginu með bæjarráði og bæjarstjóra Vestmannaeyja sem voru þá nýkomnir af fundi með hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er svo að það er engin lífsbjargandi þjónusta, engin sérhæfð bráðaþjónusta, á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Það tekur slasaða í Eyjum a.m.k. tvöfalt lengri tíma að komast í slíka þjónustu en aðra. Viðmið á landsvísu er 45 mínútur, en Eyjamenn búa við a.m.k. 90 mínútur.

Þetta á sér þá furðulegu forsögu að í byrjun árs 2013 var bækistöð sjúkraflutningavélar flutt frá Vestmannaeyjum til Akureyrar. Það var gert með þeirri skýru og skorinorðu réttlætingu að í Eyjum væri skurðstofa með lífsbjargandi þjónustu. Þeirri skurðstofu var svo lokað seinna sama ár, en flugvélin kom auðvitað ekki til baka.

Í fimm ár hefur sem sagt engin lífsbjargandi þjónusta eða sérhæfð bráðaþjónusta verið í Vestmannaeyjum og viðbragðstíminn til að komast í slíka þjónustu er a.m.k. tvöfalt lengri en annars staðar á landinu. Þetta er bókstaflega lífshættulegt ástand og verður að laga.

Andvaraleysi ráðuneytisins og stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurlands ef ekki sinnuleysi gagnvart þessu hættuástandi er óviðunandi. Heilbrigðisyfirvöld verða að skilgreina hvað á að gera á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Ef þar á ekki að vera lífsbjargandi þjónusta verður að sjá til þess að fólk í lífshættu komist í slíka þjónustu á skikkanlegum tíma. Núverandi ástand í þessu máli er algjörlega óviðunandi.