149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:31]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir að hafa frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu. Lífeyrissjóðakerfið er einn af hornsteinum íslensks samfélags og í raun hagkerfis. Eignir lífeyrissjóðanna eru meiri en landsframleiðslan og nú eiga lífeyrissjóðirnir tæpan helming allra skráðra hlutabréfa og þriðjung af heildarfjármunum samfélagsins.

Þátttaka þeirra og hegðun á markaðnum getur því skipt miklu máli. Í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir þurfa að fjárfesta fyrir um 10–12 milljarða í hverjum mánuði finnst mér vel koma til greina að þeir skoði frekari langtímafjárfestingar í íbúðarhúsnæði og/eða uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að auðvitað þarf ávöxtun lífeyrissjóðanna að vera í forgrunni, en að fjárfesta í steinsteypu hefur nú oft talist nokkuð góð fjárfesting á Íslandi.

Herra forseti. Eldri borgurum mun fjölga um helming á næstu 25 árum. Sé litið til aðeins lengri tíma, eða til 40 ára, mun Íslendingum fjölga um 100.000 manns. Þar af verða eldri borgara 75.000, af 100.000 manna fjölgun.

Í ljósi þess að við stöndum okkur ekkert sérstaklega vel gagnvart þeirri kynslóð sem byggði upp Ísland nú þegar er ég ekki svo bjartsýnn áframtíðina hvað þetta varðar. Við þurfum að gæta sérstaklega að því að lífeyrissjóðakerfið taki ekki við hinu opinbera velferðarkerfi. Með því fengist m.a. mismunur milli tekjuhópa sem er ekki verjanlegur. Við þurfum því að verja hið opinbera velferðarkerfi á sama tíma og við höfum öflugt lífeyrissjóðakerfi til hliðar og til viðbótar.