149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:17]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það kemur í ljós sem mig hefur löngum grunað, að hann er meiri formalisti en ég. Það er gott því að það þarf að vera ákveðinn formalismi á hinu háa Alþingi.

Fyrst aðeins um að nálgunin sé óljós og ekki mjög markviss. Þar er þá við mig að sakast sem höfund að tillögunni og greinargerðinni, en einmitt í því skyni er vísað sérstaklega til þess hvernig farið er með þessi mál í öðrum löndum og hvernig Alþjóðaþingmannasambandið leggur til að það sé gert. Þar vona ég að verði leiðarvísir fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að móta þetta enn frekar. Eins og ég nefndi áðan er þetta ekki eitthvað sem er kokkað hér upp. Það er komin reynsla á þetta víða annars staðar og ég legg til að horft verði til þess sem þar hefur verið gert.

Þá kemur að hinni athugasemd hv. þingmanns, um hvernig nákvæmlega þetta verði formað stjórnskipulega. Aftur þar eftirlæt ég hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að koma því fyrir. Ég hygg að hér séum við í raun og veru að fara nýja leið er lýtur að stjórnskipulegu skipulagi Alþingis sem er akkúrat sú leið sem hv. þingmaður upplýsti hér að honum hugnaðist ekki. Ég virði það bara við hv. þingmann. Við erum ósammála um að líta á Alþingi í þessu tilviki sem eina heild þar sem bæði verði horft til þjóðkjörinna fulltrúa og starfsmanna.

Leiðin nákvæmlega, hvort þetta verður einhvers konar starfshópur, skipaður bæði kjörnum fulltrúum og starfsfólki, eða ekki, er bitamunur en ekki fjár fyrir mér. Aðferðafræðin kemur ekki frá mér heldur Alþjóðaþingmannasambandinu og þar er akkúrat horft á (Forseti hringir.) þjóðþingin sem eina heild, bæði starfsfólk og kjörna fulltrúa, því að þrátt fyrir ólíkar forsendur fyrir veru okkar hér erum við öll hér á einum og sama vinnustaðnum.