149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[14:00]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum þessarar tillögu og fyrsta flutningsmanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir að koma með þetta mál hér inn. Eins og fram hefur komið í máli manna hefur náttúrlega orðið gríðarleg vitundarvakning og breyting í viðhorfi fólks til sorpmála. Lengi var haft að orðatiltæki, „lengi tekur sjórinn við“, og mönnum fannst eðlilegt að fara hæfilega langt frá landi og láta ýmislegt gossa í sjóinn af því að maður sá það svo ekki meir. Eða ekki, líklega bar eitthvað að ströndum aftur. En sorpmálin fylgja náttúrlega manninum. Þar eru stór úrlausnarefni og þetta er stóriðnaður orðinn og miklir tekjumöguleikar, það eru líka mikil verðmæti fólgin í sorpi. Mikið til í því.

Það sem ég er aðeins að velta fyrir mér er hvernig málið er sett fram. Það er mjög hnitmiðað og stutt og skýrt en vantar kannski aðeins meiri skýringar á málinu sem slíku. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Öllum sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins er óheimilt að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Brot gegn ákvæði þessu varðar refsingu, sbr. 90. gr.“

Þetta er í sjálfu sér skýrt, en ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki svolítið takmarkandi, að tilgreina bara hálendið og þjóðvegi landsins. Hvað fellur undir þá? Mér heyrist að menn séu tilbúnir að velta þessu fyrir sér. En þrátt fyrir mikla vitundarvakningu missir fólk frá sér ýmislegt eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi áðan, menn missa jafnvel heilu ruslapokana með umbúðum út um bílgluggana hjá sér. Þá er nú gott að vera á vaktinni eins og hv. þingmaður og tína upp og koma til réttra eigenda. Margir hafa gert þetta og fólk gefur sig jafnvel út fyrir það og fer í sérstakar ferðir til tína rusl og taka upp og það er orðinn lífsstíll hjá mörgum. Það er fagnaðarefni að það skuli gerast.

Maður sér ekki í dag eins og þótti eðlilegt, að það sé verið að hreinsa úr öskubökkum í bílum niður í rörahlið og henda út rusli hér og þar. Þetta þykir ekki eðlilegt. Þess vegna stingur svolítið í augun þegar maður sér eitthvað viðlíka gerast. Engu að síður, menn eru enn að átta sig á stöðunni í þessum málum. Það brugðust margir illa við þegar þeir þurftu að fara að borga fyrir sorp og skilagjald fyrir það sem þeir voru að koma með á sorpflokkunarstöðvarnar. Ég held samt að það sé að verða okkur eðlilegt og þyki sjálfsagður hlutur. Við erum kannski farin að hugsa okkur betur um þegar við kaupum vöru, veltum fyrir okkur í hvaða umbúðum við fáum hana. Margir afþakka umbúðir utan um vörur í verslunum. Við getum orðið keypt ýmislegt án umbúða. Ég held að það sé miklu eðlilegra fyrir okkur og við getum lagt okkar af mörkum hvað það varðar. En svo verðum við stundum svolítið móð og dösuð þegar við förum að horfa á heildarmyndina. Það eru gríðarlegar umbúðir utan um margt og margt sem fylgir okkur. Umræðan hefur núna verið um það hversu mikið einn lítill plasthaldpoki vegur á móti einhverju öðru miklu stærra. En þá komum við að því að við þurfum hvert og eitt að bera ábyrgð á okkar gjörðum og okkar nánasta umhverfi og hljótum að bera ábyrgð á því. Margt smátt gerir eitt stórt eins og gjarnan er sagt.

Ég hef fyrir því óyggjandi sannanir að menn nýta sér ýmsar aðstæður. Nú eru t.d. jarðgöng víða um land og það búa ekki allir svo vel að eiga upphitaða og hlýja bílskúra með ljósi. Menn hafa þá brugðið á það ráð, veit ég fyrir vestan, að nota útskotin í jarðgöngunum þar til að skipta um hljóðkúta og ýmislegt í bílunum. Þetta er fínasta aðstaða og menn eru bara að bjarga sér og nýta sér þetta. Það væri kannski í sjálfu sér ekkert athugavert við það svo fremi að ekki skapist nein hætta af því. En þá er kannski lágmarkskurteisi að skilja ekki eftir hlutina sem búið er að nota, því það kemur þá niður á Vegagerðinni að tína þá upp og ganga frá. Það er í höndum Vegagerðarinnar að halda göngunum hreinum og hreinsa til. En þetta veit ég að hefur verið að gerast og það er ekki gott. Vegagerðin hefur líklega eitthvað annað með það fjármagn sem hún hefur til umráða að gera en að vera að tína upp ónýta bílavarahluti.

En þetta er nú bara ábending til að sýna hversu fjölbreytt þetta er. Svo hefur fólk jafnvel verið að spara sér pening við að greiða skilagjald og gleymt heilu sófasettunum einhvers staðar við fáfarna vegi. Það þekkjum við öll. Það hefur gerst. Kannski þekkjum við það ekki öll, það er kannski fullt fulldjúpt í árinni tekið, en það þekkist, við höfum séð það.

Líklega þurfum við eitthvað að skoða það hvernig á að afmarka svæði, hvernig á að afmarka staðina. Vissulega eru á öllum almannastöðum ruslaílát. Það er orðið sífellt algengara að þau séu til staðar. Hjá þeim sem ganga um náttúruna, sem er sífellt stækkandi hópur, þykir orðið sjálfsagt að hugsa sem svo: Fyrst ég get borið umbúðirnar með mér með einhverju í, þá hlýt ég að geta borið þær á leiðarenda tómar. Þetta er að verða á þeim nótum frekar.

En svo velti ég aðeins fyrir mér sektunum. Er það raunhæft? Hver á að vera í því á vaktinni? Eigum við hvert og eitt að vera í sektareftirliti? Eigum við að fá eitthvert app? Við gætum sent þá skilaboð: „Þennan sá ég henda út rusli.“ Ég veit það ekki. Það er hægt að útfæra þetta á allra handa máta. Ég held að lögreglan, eins og staðan er núna, hafi kannski nóg annað að gera. Engu að síður er þetta þarft mál og það er mjög gott að ræða þessi mál. Þetta er eitt af því sem við þurfum alltaf að taka upp til að halda við meðvitundinni í þessum málum og aldrei gleyma því að það skiptir máli hvað hvert og eitt okkar gerir.

Ég hlakka til að sjá hvaða framgang þetta mál fær hér. Það lætur kannski lítið yfir sér, en þetta skiptir okkur öll máli og ég vil þakka flutningsmönnum fyrir að koma með þetta hérna inn og gefa okkur færi á að velta þessum hlutum fyrir okkur.