149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[11:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara minna hv. stjórnarliða á það, sér í lagi hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að þegar fundnar eru upp nýjar leiðir til þess að ýmist stjórna dagskrá eða umræðu þá man fólk það alveg. Ég ætla að minnast sérstaklega á fjárlagaumræðuna 2012 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá var fundin upp leið til að hafa áhrif á dagskrá sem síðan hafði lengri áhrif inn í framtíðina. Núna höfum við lokið 2. umr. um fjárlög, sem betur fer. Ég vil bara minna á það að þegar það eru fundin upp einhver ný tæki til að stjórna í umræðunni er það munað, því miður. Ég frábið mér því allt tal frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um virðingu Alþingis þegar kemur að því, þaðan koma uppfinningar eins og þær sem við erum líklega að sjá hérna og sér í lagi það sem við sáum 2012 í fjárlagaumræðunni.

Það liggur fyrir að gestir eiga eftir að koma fyrir nefndina. Það liggur fyrir að málið var tekið út úr nefnd. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að það var ósætti um það. Þetta sýnast mér vera staðreyndir sem enginn er ósammála um. Þetta á að duga til að fólk kvarti yfir því að fá (Forseti hringir.) ekki tækifæri til að ræða við hv. formann nefndarinnar í andsvörum. Þetta er ekkert flókið.