149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

staða íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu.

[16:26]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hv. þm. Birgir Þórarinsson spurði nokkurra spurninga, m.a. um hæfi starfsfólks Samgöngustofu. Það er engin spurning í mínum huga að það hefur bæði þekkingu og getu til að sinna þessum verkum.

Eins er spurt hvort stofnunin hafi fylgt eftirliti sínu eftir núna undir lokin. Eins og ég fór yfir í fyrra svari mínu hefur Samgöngustofa allar þær heimildir og hefur nýtt þær til að fylgjast með eins vel og hægt er að mínu mati.

Það er alveg ljóst að við, stjórnvöld, höfum verið að vinna markvisst síðustu mánuði að því að skipuleggja starf eða meta stöðu kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Niðurstaðan er sú að íslenskt efnahagslíf er miklu sterkara og fjölbreyttara en áður hefur verið, það hvílir ekki á einni stoð eða tveimur þannig að það þolir truflanir í rekstri einstakra fyrirtækja. Enda kom ég inn á það í inngangi mínum að ekki stæði til að fara inn í slík fyrirtæki. Hluti vinnunnar hefur líka falið í sér að meta hvernig við gætum þurft að bregðast við og hvort við þyrftum að bregðast við. Til hliðsjónar þeirri vinnu hafa viðbrögð annarra ríkja við svipuðum aðstæðum verið skoðuð varðandi mistök sem þau hafa gert.

Annars vil ég þakka málefnalega umræðu. Hún var mjög málefnaleg að öllu leyti nema einu. Hér var einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, með ábyrgðarlausar upphrópanir. Það var þó einn punktur sem var réttur hjá henni. Hún sagði að stjórnvöld hefðu ekki markað sér stefnu. Það er rétt. Aldrei hefur verið unnið að flugstefnu. Það var ein fyrsta ákvörðunin sem ég tók þegar ég kom inn í ráðuneytið. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson, sem hefur mikla þekkingu á þessu máli, fór ágætlega yfir að við hefðum síðustu mánuði af ýmsum ástæðum lagt mikla vinnu í stefnumótun í flugi. Vonandi skilar það sér m.a. í því að millilandaflug verði aukið, sem hv. þm. Berglind Häsler var að spyrja um. (Forseti hringir.) En klárlega er staðan sú að flug hefur vaxið og er orðið mjög stór þáttur í efnahagslegu tilliti á Íslandi, undirstaða ferðaþjónustunnar. Það er mikilvægt að stjórnvöld fylgi því eftir, sem og undirstofnanir ráðuneyta.