149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Takk fyrir það. Bara ein yfirlýsing í byrjun: Sá þingmaður sem hér stendur er ekki stuðningsmaður stjórnarmeirihlutans á Alþingi (SJS: Nú?) og tilheyrir honum ekki. (SJS: Hvað segirðu?) Ég veit þetta er áfall fyrir marga og áfallahjálp verður veitt síðar, en þetta er samt svona.

Það er hins vegar stórlega ámælisvert, eins og ég tók fram áðan, þegar 62 þingmenn eru þjófkenndir í einu bréfi. Sá sem hér stendur tekur því ekki mjög vel ef hann er þjófkenndur, hefur aldrei gert og mun ekki gera. Ef hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur þá trú að sá sem hér stendur hafi misfarið með opinbert fé er nærtækast að kæra hann til lögreglu, þ.e. þann sem hér stendur. Ef það er trú manna að hann hafi brotið lög og seilst í sjóði landsmanna er um að gera að kæra viðkomandi til lögreglu. Það er rétta leiðin. En að vera með dylgjur, eins og búið er að vera með í málinu frá byrjun, og sætta sig síðan ekki við lýðræðislega niðurstöðu í forsætisnefnd, halda þessu áfram og lemja sína eigin trommu til að koma þeim sem hér vinna illa, (Forseti hringir.) hlýtur náttúrlega að vera framlenging á því eineltisfyrirbæri sem viðgengst í þessum (Forseti hringir.) flokki. Er ekki rétt að kalla til vinnusálfræðinginn aftur? (Gripið fram í.)