149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðu hans. Ég tek undir það að það skiptir máli að við búum þannig í haginn varðandi umhverfi sjávarútvegs að greinin geti haldið áfram að hagræða. Við höfum sem betur fer séð að það kerfi sem við höfum komið upp — og mjög margir hafa komið að því að byggja það upp — er mjög gott í stóru myndinni. Það hafa ekki bara verið útgerðarmenn sem hafa lagt sitt af mörkum heldur ekki síður sjómenn og fiskvinnslufólk, og ég vil líka nefna stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn allra flokka hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir, hvort sem það var 1983, með innleiðingu kvótakerfisins, eða með frjálsa framsalinu sem vinstri flokkarnir gerðu á sínum tíma og eru nú oft og tíðum gagnrýndir innan sinna eigin raða fyrir. Það var þó farsælt skref sem var stigið til að stuðla að ákveðnum heilbrigðum rekstrarhvötum og hefur skilað þessari miklu hagræðingu, styrkt rekstur útgerða, ekki bara þeirra stóru heldur líka þeirra sem minni eru. Fyrir vikið höfum við líka séð það — ekki síður út af krónunni, vissulega, það er ekki hægt að sleppa henni — alveg frá hruni að sjávarútvegurinn hefur bætt eiginfjárstöðu sína um 341 milljarð. Hann hefur greitt sér yfir 80 milljónir í arð, minnkað skuldastöðu sína um 86 milljarða og fjárfest fyrir 95 milljarða, ekki síst á allra síðustu árum. Þetta tel ég mjög til bóta, sérstaklega þetta svigrúm til að fjárfesta áfram í greininni. Það skilar sér í afleidd störf, eykur nýsköpun og rannsóknir og þróun í öðrum afleiddum störfum. Við verðum að sjá að það er einna helst fjölgun starfa þar, ekki í veiðum og vinnslu.

Mig og hv. þingmann greinir á um hvernig við eigum að fara í gjaldtökuna og ég kem að því á eftir. En mig langar að spyrja hann hvort hann telji að ríkisstjórnin hafi gert sitt til að ná sátt í þessu. Steig hún mikilvæg skref til að reyna að ná sátt þvert á flokka? Og hitt: Er hann hlynntur tímabundnum nýtingarsamningum eða samningum sem gerðir eru um aðganginn að auðlindinni á milli ríkis og útgerðar?