149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Hinn 11. nóvember sl. voru 100 ár síðan fyrri heimsstyrjöldinni lauk. RÚV hefur gert málinu góð skil. Stríðið stóð í fjögur ár og var með öllu tilgangslaust, stríð sem kostaði 16 milljónir manna lífið.

Vestur-Íslendingar börðust í þessu stríði. Einlæg bréf þeirra til ástvina lýsa söknuði, ótta og einmanaleika. Margir þeirra upplifðu að þeir væru að berjast fyrir Ísland. Þeir áttu eftir að upplifa hræðilegt blóðbað, miklar þjáningar í skotgröfum, eiturgas, dráp og dauða. Þetta voru ungir piltar, fæddir á Íslandi, komnir í skelfilegar aðstæður þar sem ekkert beið þeirra nema ískaldur dauðinn. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa úr tveimur bréfum:

„Við skjálfum og kveinum. Ég vakna til þess að drepa eða vera drepinn. Alls staðar sér maður undirbúning fyrir morð. Hver einasta manneskja er forug og skítug.“

„Þetta stríð setur í manninn heift og grimmd og hatur, tekur burt mannúðina og drepur alla sómatilfinningu. Náttúrufegurðin er eyðilögð með svörtum reyk, ryki og drullu úti um allt. Hér ríkir viðbjóðsþoka. Limlestir mannsskrokkar eru viðbjóðslegir. Stríð er viðbjóður. Stríð er saurugur harmleikur.“

Þetta er myndin sem blasti við þessum ungu piltum og þeir lýstu í bréfum til ástvina sinna áður en þeir gengu út í opinn dauðann. Það var algeng trú manna að fyrri heimsstyrjöldin myndi binda enda á öll stríð, að stríðið yrði víti til varnaðar til framtíðar. Raunin varð allt önnur eins og við þekkjum. Ísland er herlaus þjóð án vopnaframleiðslu. Í því felst okkar stærsta tækifæri til að verða trúverðug rödd friðar í heiminum.