149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar fyrir það að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa fundið tíma til þess að koma hingað eins og rætt var um og ræða við þingmenn. Þá geri ég ráð fyrir að það séu þingmenn stjórnarandstöðunnar, það erum við sem þurfum að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra. Hún kom í hús klukkan fjögur. Okkur var sagt að hún yrði hér til klukkan sex.

Í gær upplifðum við að stjórnarþingmenn voru mjög duglegir í því að ýta sér neðar á mælendaskrá. Það hefur hins vegar ekki gerst núna og núna er hátt í klukkutími liðinn af þessum klukkustundum sem voru að mínu mati ætlaðar stjórnarandstöðunni til að eiga orðastað við forsætisráðherra.

Mér þætti vænt um ef það væri hægt að liðka til fyrir þessu, í fullri vinsemd. Ég skil annir forsætisráðherra og allt það. En þess þá heldur viljum við, svo við þurfum ekki að fara í að knýja á eða óska eftir frekari tíma af hálfu hæstv. forsætisráðherra, að þessi tími yrði nýttur fyrir stjórnarandstöðuna meðan forsætisráðherra er í húsi.