149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki leitt mikið hugann að þessu. Ég hef einbeitt mér talsvert að því að skoða þetta kerfi eins og það hefur verið og þær tillögur sem hefur verið talað um og út frá uppskiptingunni á veiðunum. Það hefur verið nógu flókið að mynda sanngjarnan reiknistofn fyrir uppsjávarafla og botnfisk. Svo erum við að undanþiggja einhverjar tegundir sem koma endrum og sinnum um borð þannig að við tökum ekki gjald af þeim.

Hvort við getum flokkað fyrirtækin, sem ég held að hv. þingmaður hafi átt við, kemur það auðvitað ágætlega heim og saman við hugsunina í nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar, að þrepaskipta einhvern veginn afslætti. Þá er maður kannski farinn að hugsa um hvernig við flokkum útgerðarfyrirtækin. Það má hugsa sér einhvers konar flokkun, hvort þau eru með veiðar og vinnslu eða bara í veiðum eða bara í vinnslu, hvernig fyrirtækin eru flokkuð og hvernig þau nýta auðlindina.

Mér finnst það ágætishugleiðingar en myndi segja að ég væri ekki kominn lengra hér og nú.