149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er líka algjörlega á því að við getum virkjað það til góðs og eigum að gera það. Við þurfum bara að passa okkur á gildrum sem geta verið á hvaða vegi sem við erum á í rauninni.

Ég átta mig á að markmiðið um 0,7% næst ekki í einu skrefi. Ég skal líka virða það að í fimm ára áætlun getur verið óeðlilegt að nefnt sé eitthvert ártal, en mér fannst ég skynja hjá ráðherra að hann teldi þó að Íslendingar ættu að stefna að þessu í framtíðinni. Ef svo er finnst mér allt í lagi að ein lína komi inn um það.

Það getur vel verið að fólki finnist þetta mikil framlög en í ljósi þess að við höfum enga aðra leið en að sigrast saman á þeim brjálæðislega vanda sem við stöndum frammi fyrir, misskiptingu, fátækt, loftslagsógn, held ég að við eigum að stefna ótrauð á það. Ég held að Íslendingar muni almennt styðji okkur í því markmiði. Það er nærtækt að rifja upp að ekki þarf að líta lengra aftur en til 1976 þegar Íslendingar þáðu styrk úr mannréttindasjóði Sameinuðu þjóðanna. Okkur hættir nefnilega til að gleyma því hvað það er stutt síðan við bjuggum við örbirgð hérna.

Ég ítreka, hæstv. ráðherra, að það er engin önnur leið en samábyrgð, samhjálp og mikið fjölþjóðlegt samstarf og við skulum bara fara þangað saman.