149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þetta er í samræmi við stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar um að auka fé til rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Þetta var því eilítið stílbrot á þeirri almennu hagræðingu sem fór á öll ráðuneyti í ljósi breytinga á milli efnahagsspáa. Í þessu tilviki fór fjárhæðin á rannsóknasjóð og það var stílbrot á þessari stefnu. Auðvitað var þetta ekki há fjárhæð af heildarfjárhæðinni. En eftir samtal við hæstv. ráðherra kom fram að hann vill endurskoða þessa ráðstöfun og dreifa hagræðingunni milli málaflokka og milli liða, enda ber hæstv. ráðherra ábyrgð samkvæmt lögum um opinber fjármál (Forseti hringir.) á málefnasviðum sínum og málaflokkum.