149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í gegnum síðustu tvennar alþingiskosningar höfum við orðið mjög vör við það að staðan er ekki auðveld eftir hrunið. Við erum í mikilli skuld. Mikil áhersla hefur verið lögð á að greiða upp peningalegu skuldirnar en við erum með samfélagslegar skuldbindingar og innviðaskuldbindingar sem fela í sér mikinn kostnað. Það er ákveðin huggun í því að verið er að stíga einhver skref í áttina að því að grafa ofan í þá holu sem hrunið skildi okkur eftir í. En það hefur líka komið margoft fram að svokölluð stórsókn í samgöngum er ekki stórsókn, ekki miðað við meðaltal fyrri ára, alls ekki. Við erum bara komin eitt skref í þá átt.

Mikið er talað um stórsókn. Þetta fjárlagafrumvarp er það ekki. Þetta fjárlagafrumvarp er tvímælalaust skref í áttina, ég skal alveg segja það. Það er útgjaldavöxtur, já, en það er ekki endilega sá útgjaldavöxtur sem þörf er á miðað við þá skuld sem við erum í vegna samfélagslegra innviða, vegna vegakerfisins og annars, sem er algjör nauðsyn að sinna.

Það er verkefni (Forseti hringir.) sem við þurfum að vinna dálítið saman. Þetta fjárlagafrumvarp er ekki fjárlagafrumvarp samvinnu.