149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki mestar áhyggjur af starfsemi Bankasýslunnar til lengri tíma litið heldur kannski meiri áhyggjur af langvarandi eignarhaldi ríkisins á jafnstórum hluta bankakerfisins og raun ber vitni hér á landi. Samkeppni á fjármálamarkaði er lítil og það örvar hana ekki að ríkið haldi á tveimur af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins. Þess vegna langar mig fyrst og fremst að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Stendur til að losa um eignarhald ríkisins á þessu kjörtímabili? Er sátt um það í þessari ríkisstjórn að losað verði um og hversu mikils má vænta, hversu stóran hluta má vænta að ríkisstjórnin áformi að selja á þessu kjörtímabili?