149. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2018.

um fundarstjórn.

[20:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Menn setja sig auðvitað á misjafnlega háan hest í umræðunni, sumir tala um að landsmenn vilji ekki, að vilji þjóðarinnar sé ekki virtur. Þeir telja sig þess umkomna að tala í nafni þjóðarinnar. Það er nauðsynlegt í öllu því samhengi að halda því til haga að í allri þeirri miklu vinnu sem hefur verið síðustu tvær vikurnar innan umhverfis- og samgöngunefndar hefur minni hlutanum verið boðin þátttaka í öllum fundum með þeim sérfræðingum sem nefndin hefur unnið með. Þeim hefur verið boðið að taka þátt í viðræðum við ráðuneytið. Við höfum boðið öllum flokkum í gegnum fulltrúa í nefndinni að við kæmum með kynningarefni inn á alla þingflokksfundi, þannig að þingflokkarnir gætu tekið umræðu um málið og fylgst með því hvert það væri komið. Þetta varðar nefnilega daglegt líf landsmanna. Þetta snýst um umferðaröryggi. Þetta snýst um að draga úr slysum. Þetta snýst um að koma samgöngukerfi okkar til nútímans svo að fólk geti ferðast sómasamlega á milli landshluta. (Forseti hringir.)

Það er kallað eftir samhljómi allra flokka. Það var líka kallað eftir því í fiskveiðistjórnarlögunum.(Forseti hringir.) Það var líka kallað eftir því í fjárlögum. Það er auðvitað ágreiningur, hann er vel þekktur á þingi. (Forseti hringir.) Eina málefnalega athugasemdin sem ég hef rekist á (Forseti hringir.) í þessari umræðu er frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni þar sem hann sagði að þetta hefði áhrif á ríkisfjármálaáætlun (Forseti hringir.) og fjármálastefnu. Það er alveg hárrétt og það er auðvitað það sem er næsta skref (Forseti hringir.) og myndi fylgja því frumvarpi (Forseti hringir.) sem hæstv. samgönguráðherra boðar eftir jól eða á nýju ári.

(Forseti (ÞorS): Forseti mælist til þess að hv. þingmenn virði tímamörk.)