149. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. „Öryggi er ekki tryggt á yfirfullum bráðadeildum.“ Svona var fyrirsögn í einu dagblaðanna fyrir nokkrum dögum. Þessi fyrirsögn er því miður ekki ný af nálinni en þó virðist sem nýting sjúkrarúma á bráðalegudeildum Landspítalans hafi náð nýjum hæðum í síðustu viku þegar hún fór í 117%. Það þarf ekki mikla reikningsmeistara til að átta sig á því að það er ekki sérstaklega auðvelt — og þetta er kaldhæðni — að tryggja öryggi sjúklinga við slíkar aðstæður.

Velferðarnefnd fékk forstjóra Landspítalans með sínu fólki, landlækni og heilbrigðisráðherra til fundar í morgun um málið. Það er klárt að það eru margar samverkandi ástæður fyrir vandanum en það er líka ljóst að spítalinn ásamt heilbrigðisyfirvöldum er með málið undir smásjá. Það er margt í pípunum sem mun vonandi slá á vandann en því miður eru margar af þeim aðgerðum sem eru í bígerð langtímalausnir.

Mig langar til að beina sjónum aðeins að mönnunarvandanum. Hann hefur aukist á síðustu árum, ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga. Þar liggur vandinn ekki síst. Við erum að mennta hjúkrunarfræðinga, það er enn þá aðsókn í námið en þeir skila sér mun síður en áður inn í þessi störf. Síðan er líka ljóst að það eru margar ástæður þar undir eins og álag, sem minnkar ekki við slíkar aðstæður, það eru aðstæður og það eru launin. Svo smættum við þetta niður því að það sem mig langar að ræða er launavandinn.

Það er nefnilega rík ástæða af þessu tilefni til að rifja upp þá staðreynd að laun hjúkrunarfræðinga, líkt og laun margra annarra starfsstétta, svokallaðra kvennastétta, eru lægri en launakjör annarra stétta miðað við sambærilega menntun og sambærilega ábyrgð á vegum hins opinbera.

Síðastliðið vor lagði þingflokkur Viðreisnar ásamt góðum hópi samþingmanna fram tillögu sem fól í sér að ráðherra fjármála yrði falið að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, og að átakið fæli í sér sérstakan kjarasamning um bætt launakjör (Forseti hringir.) þessara stétta.

Í meðförum meiri hlutans síðastliðið vor var sú tillaga þynnt út svo að hún er að nær engu orðin. En aðstæður í dag (Forseti hringir.) benda til þess að full ástæða sé fyrir stjórnvöld til að endurskoða hug sinn. Þessi staða, (Forseti hringir.) ekki síst þegar hún er síendurtekin, er dauðans alvara.